138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:15]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var í fréttum ekki alls fyrir löngu að einn borgarfulltrúinn vildi að borgarfulltrúar skiluðu inn heilbrigðisvottorði til þess að sjá hvort þeir hefðu getu til þess að sitja í borgarstjórn. Ég held að væri ágætt að þingmenn gengju í gegnum eins konar minnispróf þegar þeir ganga inn í þinghúsið til þess að athuga hvort langtímaminnið sé nokkuð orðið fullt. Við vitum að í tölvu þarf stundum að eyða gögnum þegar allt er orðið fullt og stíflað. Maður veltir fyrir sér hvort það geti átt við hér. En ég þakka hv. þingmanni fyrir að minna á að það eru fleiri flokkar í stjórnarandstöðu. Ég er löngu hættur að láta það angra mig þegar Samfylkingin og sérstaklega hinn kotroskni hæstv. utanríkisráðherra kemur hér og fer mikinn um stjórnarandstöðuna, þá fer það nú inn um annað eyrað og út hinum megin, það stoppar ekkert.

Ég get heldur ekki, hv. þingmaður, ráðið í hvað ráðherrarnir eru að gera þegar þeir eru ekki hér og forðast það helst, en ég vil þó taka fram að hæstv. fjármálaráðherra hefur verið mjög þaulsetinn hér og ber að þakka honum fyrir það. Ég veit að hann er í húsinu. Ég sakna þess hins vegar að ýmsir aðrir ráðherrar skuli ekki eyða meiri tíma hér, eins og hæstv. forsætisráðherra og hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra, því að eins og ég held ég hafi bent honum á í einni ræðu er veruleg hætta á því að ef þetta skelfilega frumvarp nær fram að ganga og við tökum þessar skuldbindingar á okkur muni viðskiptavinum hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra fjölga mjög hratt á næstu árum, verði þetta að veruleika.

Ég held því að það sé ábyrgðarhluti hjá ráðherrunum og stjórnarþingmönnum hvað þeir eru lítið við þessa umræðu. En það má alltaf bæta sig og vonandi gera þeir það við 3. umræðu.