138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:19]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg augljóst að mínu viti hvers vegna þessu var þannig háttað. Það var vegna þess að Bretar og Hollendingar vildu með því hámarka það sem þeir fá út úr þessum kröfum og að sjálfsögðu kynntu þeir sér íslensk lög. Það held ég hins vegar að íslensk stjórnvöld hafi ekki gert, ég held að þau hafi ekki kynnt sér bresk lög sem um samninginn gilda. Um samninginn gilda bresk lög og það var búið að fella fyrirvarana inn í samninginn og setja lagastimpilinn á hann. Þá var vitanlega algjörlega fáránlegt að fá ekki sérfræðimat á því hvað það þýðir. Hvað þýðir það t.d. ef efnahagslegi fyrirvarinn er rekinn fyrir enskum dómstóli? Hvernig verður hann túlkaður og slíkt?

Ég er ekkert hissa á því að forsætisráðherra Íslands hafi fengið bréf frá forsætisráðherra Bretlands þar sem hann segir í örfáum línum að hann sé óskaplega ánægður með það hvernig tekið hafi verið á málum, hvernig málinu hefur verið breytt. Á a.m.k. tveimur eða þremur stöðum vísar hann til þess að hann sé svo glaður yfir að nú sé búið að binda allt saman í lagatexta í samningi og ekki neitt lengur bundið samþykkt Alþingis um ríkisábyrgðina. Það er vegna þess að Bretarnir gera sér grein fyrir því að um samninginn gilda bresk en ekki íslensk lög, sem þeir hafa kynnt sér.

Það er athyglisvert að lesa þetta bréf frá Brown vegna þess að í því er gríðarlegur þrýstingur á íslenska forsætisráðherrann að drífa nú í þessu máli og hvika hvergi frá því. Það er vitanlega vegna þess að Bretar hafa gert hagsmunamat á þessum samningi og öllu sem að honum snýr og telja nú rétti sínum og hag betur borgið.