138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:23]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er nú langt frá því að vera löglærður maður en ég segi nú svipað og ágætur píanóleikari sagði í fréttum í dag, ég er þó þokkalega læs og skil þennan samning ágætlega.

Það er að sjálfsögðu búið að veikja og draga tennurnar úr þessum fyrirvara núna, því að eitt af þeim lykilatriðum sem voru í lögunum sem samþykkt voru í ágúst var einhliða réttur til þess að segja upp þessum samningi eða í rauninni að takmarka ríkisábyrgðina. Hollensk og bresk stjórnvöld hafa í gegnum allt þetta ferli viljað hafa nógu mikið af svokölluðu teboðum í samningnum. Það er vegna þess að þau hafa ekkert lagalegt gildi þegar komið er inn í breskan réttarsal. Hugsanlega fá menn te í salnum, ég hef ekki hugmynd um það, en það er í besta falli það sem við fáum út úr þessu í breskum réttarsal, held ég.