138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:26]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Icesave-flokkarnir eru nú við völd á Íslandi og þeirra verður minnst fyrir Icesave ef það verður samþykkt eins og það lítur út í dag. Þessi Rauði þráður sem hv. þingmaður vitnaði í er greinilega mjög sérkennilegt fyrirbæri. Framsóknarflokkurinn ætlar ekkert að hlaupast undan því að hafa verið hér í ríkisstjórn á árum áður og örugglega tekið ákvarðanir sem voru rangar og hefði ábyggilega mátt gera betur einhvers staðar. En það er mjög sérkennilegt að sá flokkur sem var með viðskiptaráðuneytið þegar Icesave hrundi — og einn ágætur maður úr þeim flokki var formaður stjórnar Fjármálaeftirlitsins og varaformaður stjórnar Seðlabankans — skuli hafa reynt að þurrka þessa staðreynd út úr minni sínu eða kjósenda sinna og flokksmanna. Það er líklega enginn stjórnmálaflokkur á Íslandi sem ber jafnmikla ábyrgð á Icesave og Samfylkingin vegna þess að þeir héldu um alla stjórnartauma er komu að þessu máli. (Gripið fram í: Rétt.)

Og ofan á allt eru þeir farnir að ráða hluta af þessum snillingum sem voru við stjórnvölinn í bönkunum til sín. Hvort sem það er í fasta vinnu eða sérverkefni, leita þeir ráða hjá þessu ágæta fólki. Ég efast ekki um að þetta sé allt ágætisfólk.

En ég segi það, frú forseti, vegna spurningar hv. þingmanns að þetta er grímulaus sögufölsun (Gripið fram í.) sem Samfylkingin dreifir hér um íslenskt samfélag og hún ætti að skammast til þess að viðurkenna sinn hlut.