138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:30]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Mikið var talað um það í upphafi árs 2009 að þörf væri á styrkri verkstjórn, það væri það sem skorti eftir hrunið að hafa styrka verkstjórn í landinu til að koma þeim verkefnum áleiðis sem brýnust væru. Skipt var um ríkisstjórn og nýr verkstjóri var settur í starfið og uppbyggingin átti að hefjast. Síðan þá höfum við verið að baksa með eitt erfiðasta milliríkjamál sem við höfum nokkurn tímann staðið frammi fyrir, Icesave-málið, og sú verkstjórn sem á því máli hefur verið er vel gagnrýnisverð. Alveg frá því að Icesave-málið kom inn í þingið í sumar hefur það einkennst af því að reynt hefur verið að fá ríkisstjórnarflokkana til að skilja það að málið í þeim búningi sem það hefur verið er ekki tækt til samþykktar. Heilt sumar tók að fá ríkisstjórnina til að fallast á það að gera yrði breytingar á málinu ella færi það ekki í gegnum þingið. Og þingið var ekki upptekið af Icesave-málinu vegna þess að það væru svo brýn mál önnur á dagskrá þingsins, svo var ekki. Icesave-málið var nánast eina málið á dagskrá í sumar, þannig að verkstjórnin fólst fyrst og fremst í því.

Nú erum við aftur komin með Icesave-málið hingað og nú tala menn mikið um málþóf. Ég tek eftir því að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, sem hefur lítið verið við þessa umræðu og einungis tekið þátt í stuttu andsvari, lýsir því yfir í dag að hann sé þess fullviss að ríkisstjórnin fái Icesave samþykkt á Alþingi óbreytt. Hann er sannfærður um það, þótt hann hafi ekkert verið í þinginu að fylgjast með umræðunni, að ríkisstjórnin muni fá þetta samþykkt óbreytt og að ríkisstjórnin geti þrýst málinu í gegn í krafti þingmeirihluta en hann vilji heldur hafa stjórnarandstöðuna með. Á hverjum degi hafa komið fram nýjar upplýsingar um Icesave-málið og mikið hefur verið talað um að hér sé komið á mikið málþóf, hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra nefnir reyndar það orð í þessu stutta viðtali, en ég get upplýst þingheim um það að ég er að halda þriðju ræðu mína í þessu mikla málþófi svo eitthvað er nú rangt með farið. Finnst mönnum undarlegt að í 29 manna stjórnarandstöðu þurfi menn ekki að ræða slíkt mál sem Icesave-málið er? Einhverjum þætti það nú undarlegt ef slíkt mál færi í gegnum þingið á miklum hraða.

Mig langar til að gera að umtalsefni tvö ný sjónarmið úr nýjum áttum sem komu fram í dag. Núna er uppi mikil deila um það hvort við Íslendingar getum risið undir þessum skuldbindingum og ég hygg að það hafi verið alveg frá upphafi það sem við vorum hvað hræddust við, að við vitum ekki hversu miklar skuldbindingar við erum að takast á herðar. Og þegar búið er að búa svo um hnútana að ríkisábyrgðin er ekki takmörkuð á neinn hátt, erum við að leggja það til að veitt sé ríkisábyrgð fyrir 750 milljörðum plús vextir langt inn í framtíðina. Og jafnvel þótt við vonumst öll til þess að sem mest fáist upp í kröfur er þetta skuldbindingin. Þetta er skuldbindingin sem við erum að fjalla um en ekki einhver önnur tala sem menn finna út að gæti hugsanlega orðið niðurstaðan.

Og í þeim rembihnút sem þetta mál er komið í í þinginu, hefur stjórnarandstaðan enn á ný reynt að benda ríkisstjórninni á mikilvæg atriði í Icesave-málinu sem þurfi að skoða nánar og hefur í dag farið fram á það eða sagt ríkisstjórninni hvað það er sem þurfi að skoða rækilega á milli umræðna, bæði í hv. fjárlaganefnd og einnig er mjög brýnt að hv. efnahags- og skattanefnd fái almennilegan frið til að vinna þau mál, sérstaklega er snúa að skuldaþoli ríkisins.

Ólafur Ísleifsson hagfræðingur hefur nú tjáð sig um þann mikla vanda sem skuldastaða ríkisins er. Hann segir í fréttunum í kvöld að risin sé upp ný óvissa um skuldastöðu ríkisins og við séum komin hér, hæstv. forseti, í mjög brothætta stöðu og það sé óumflýjanlegt að skjóta ákvörðun um Icesave á frest þar til menn hafi fengið úr því skorið hvert skuldaþol ríkisins raunverulega er og hverjar skuldir Íslendinga eru.

Hvernig má það vera að það liggi svo mikið á að leggja þessar byrðar á þjóðina að ekki megi eyða til þess nokkrum dögum eða þeim tíma sem þarf til að reikna það út og reyna að afla allra upplýsinga um hvaða skuldir það eru sem okkur er gert að standa undir? Á sama tíma og farið er fram á það að við veitum ótakmarkaða ríkisábyrgð, nokkuð sem við börðumst hvað mest fyrir í sumar að hún yrði takmörkuð með einhverjum hætti, nú á hún að vera ótakmörkuð, er manni sagt að maður eigi að hafa leyfi til að leggja slíkar skuldbindingar á ófædda Íslendinga langt inn í framtíðina. Ég hef sagt það áður og ég ætla að segja það aftur að ég dreg í efa að alþingismenn árið 2009 hafi leyfi til að binda Íslendinga árið 2030 og 2040, en það getur vel verið að svo geti orðið. Ég tala nú ekki um þegar alltaf eru að koma fram upplýsingar utan úr heimi um væringar þar á alþjóðamörkuðum, sem er líka ástæða til að taka til athugunar þegar Icesave-málið er undir.

Í öðru lagi langar mig að nefna að Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir stjórnsýslufræðingur skrifaði í dag á bloggsíðu sína að það vantaði leiðsögn í Icesave-málinu, að það væri nauðsynlegt að ríkisstjórnin og þá væntanlega þeir sem fara með verkstjórnina, taki málið til sín og reyni að koma því út úr þeim hnút sem það er í. Það vekur mig til umhugsunar um það að full ástæða sé fyrir okkur að líta til þess útspils sem stjórnarandstaðan hefur lagt fram á borðið í kvöld og hefur raunar verið skoðun stjórnarandstöðunnar allt frá því málið kom inn í þingið, þ.e. að þessu máli verði hreinlega að vísa frá. Það er eitt af því sem kemur fram af hálfu stjórnarandstöðunnar í dag, að það sé nauðsynlegt að ríkisstjórnin fari nú í það að koma málinu í þann farveg sem því var ætlað að vera með samþykkt þingsályktunartillögu 5. desember 2008.

Þetta mál er allt dæmi um það að menn æða áfram, vilja ekki hlusta á sjónarmið annarra, bíða þar til allt er komið í algjört óefni og fara þá að tala um það að menn séu að leggja stein í götu lýðræðislegrar umræðu. Þetta er auðvitað ekki rétt. Svona eiga menn ekki að tala, svona eiga alls ekki hv. alþingismenn að tala sem vita mætavel hvernig stjórnarskránni er háttað og hvert hlutverk þingmanna er.

Það er afskaplega dapurlegt að málið skuli vera komið í þann óskaplega rembihnút sem það er í nú í dag. Sú tilraun sem gerð var í sumar, að reyna að líta á málið sem sameiginlegt hagsmunamál þjóðarinnar, er komin út í veður og vind og ekki orðin að neinu. Í stað þess eru menn í stöðugu rifrildi og vilja ekki átta sig á því að þessu máli verður að koma upp úr þeim hjólförum sem það er í núna og menn verða að átta sig á því að áður en allar þessar skuldbindingar verða lagðar á Íslendinga verða menn a.m.k. að hafa allar þær upplýsingar tækar á borðinu sér til rökstuðnings. Þeir sem þá hafa sannfæringu fyrir því að öðruvísi verði ekki áfram haldið en að samþykkja þessi ósköp skulu gera það en hinir geta þá sagt það sem rétt er að mínu mati, að þessum samningi verði að hafna, hann verði að fara héðan burtu. Það þurfi að byrja upp á nýtt.

Við reyndum eins og við gátum að laga það samkomulag sem fyrir var. Það gerðum við með fyrirvörunum. Það hefur ekki tekist, á það hefur ekki verið hlustað. Ríkisstjórnin virðist nú vera ákveðin í því með öllum tiltækum ráðum að koma þessu í gegnum þingið og hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra lýsir því bara yfir opinberlega eins og ekkert sé sjálfsagðara að þetta verði samþykkt óbreytt.

Maður spyr sig þá: Er það virkilega svo að það sé skoðun ríkisstjórnarinnar þegar frumvarp er lagt fram í þinginu að því megi ekki breyta? Og er það virkilega svo þegar fram koma nýjar upplýsingar um þungbærar skuldir á þjóðinni að það eigi ekki að verja hana? Er það skoðun hæstv. ríkisstjórnar að svo skuli vera? Og er það skoðun hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, sem ber höfuðábyrgð nú á efnahagsmálum íslensku þjóðarinnar, lítur hann svo á að það sé kannski betra að hafa stjórnarandstöðuna með? Þetta snýst ekkert um stjórn og stjórnarandstöðu. Þetta snýst um hagsmuni íslensku þjóðarinnar og auðvitað er það skylda hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra að líta þannig á málin. Og ef hægt er að verja þjóðina betur, er skylda hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra og allra þeirra sem hér eru inni að gera nákvæmlega það.