138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:42]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það hefur verið einkenni þessa máls og í raun margra annarra sem eru á borði ríkisstjórnarinnar að það er engin leið að fá upplýsingar um það hvernig hlutirnir eru raunverulega vaxnir. Það er líka mjög áberandi að ráðherrar í hæstv. ríkisstjórn eru mjög ósammála um það hvernig hlutirnir eru vaxnir. Síðast kom það fram hjá hæstv. fjármálaráðherra þegar hann lýsti þessum grímulausu hótunum sem áttu að hafa komið fram og hafa vísast komið frá Evrópusambandinu en hæstv. forsætisráðherra taldi að svo hefði ekki verið. Einhvern veginn liggur ekki alveg fyrir hvernig þessum málum er háttað.

Ég held að það sé nauðsynlegt fyrir ríkisstjórnina á tímum eins og nú eru að fara fram með mjög ákveðna leiðsögn um það hvernig menn ætli að komast út úr vandanum og þá verða menn fyrst og fremst að treysta þeim sem þeir eiga samskipti við. Og þeir eiga auðvitað að treysta öðrum stjórnmálaflokkum fyrir mikilvægum upplýsingum. Hæstv. fjármálaráðherra sagði um daginn að þetta væru gríðarlega viðkvæmar upplýsingar og voveiflegir atburðir sem gætu orðið ef við samþykktum ekki Icesave-málið, en það væri ekki hægt að fjalla um það í þingsal. Hins vegar hefur það stundum gerst að einhverjar slíkar upplýsingar hafi komið í fjölmiðlum en það borgar sig frekar að hafa þær þar en í þingsalnum.

En ég vil þá benda á að það eru alveg fordæmi fyrir því, virðulegur forseti, að þingfundir séu haldnir fyrir luktum dyrum, ef upplýsingar eða atburðir eru þannig að nauðsynlegt er að greina frá því í trúnaði er hægt að halda fundi fyrir luktum dyrum. Það hefði verið hæstv. ríkisstjórn í lófa lagið að leggja það til gagnvart þeim málum sem hún taldi að þyrftu að koma fram út af Icesave, en það hefur ekki verið gert og þær upplýsingar sem talað er um hafa ekki komið fram. Þess vegna er ekki hægt að draga aðra ályktun en þá að ekki sé um slíkar upplýsingar að ræða.