138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:44]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir skýr svör. Ég get tekið undir að það hefði verið hæstv. ríkisstjórn í lófa lagið að upplýsa okkur þó að auðvitað hefði verið æskilegast og er æskilegast að þetta mál verði upplýst fyrir opnum tjöldum og allir hafi þær upplýsingar sem þeir þurfa, ég tala ekki um ef málið væri þannig vaxið að það mundi hugsanlega fara í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Mig langar aðeins að halda áfram með verkstjórnina, því að nokkrir hv. þingmenn stjórnarliðanna hafa komið upp í ræðupúlt, í andsvörum reyndar fyrst og fremst, ekki í efnislegum ræðum, og lagt áherslu á að það sé mjög nauðsynlegt að fara að samþykkja þetta frumvarp sem fyrst og það sé allt í lagi því að það sé bara hægt að semja um það síðar.

Nú langar mig að spyrja hv. þingmann hvort telur hún betra og hagfelldara fyrir íslenska þjóð, þ.e. að fara þá leið sem stjórnarliðarnir leggja til eða þá leið sem stjórnarandstöðuflokkarnir hafa lagt til í dag, eins og hv. þingmaður sagði í ræðu sinni, að taka málið út úr umræðu í þinginu og fara gaumgæfilega yfir þau álitaefni sem þar koma fram, eins og t.d. vaxandi skuldabyrði og stærð fjárskuldbindinganna, sem Icesave bindur okkur um langa hríð og kannski mun lengur en margur kýs að gera sér grein fyrir, og stjórnarskráratriði og fleira. Í því sambandi langar mig að nefna að ég hafði talsverðar áhyggjur af því á sumarþinginu, og hef svo sem enn, að samningurinn sjálfur hefur auðvitað tekið gildi og í honum eru atriði sem menn hafa kannski gleymt, eins og til að mynda vanefndaákvæðin sem ég hef talið að mundu koma í veg fyrir að í framtíðinni væri hægt að taka samninginn upp og semja upp á nýtt og það væri búið að binda hendur okkar fyrir aftan bak rækilega.