138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:19]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kom inn á það í ræðu sinni áðan að margir nýir fletir hefðu komið í ljós á málinu þó að margir stjórnarliðar, hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar, hefðu ekki séð ástæðu til að taka þátt í umræðunum og alltaf verið að tala um að aldrei kæmi neitt nýtt fram, að þeir hefðu heyrt þetta allt saman áður.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í ummæli hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra en haft var eftir honum í dag, og er vitnað í eyjuna.is, sem er veffjölmiðill — þar segir hæstv. viðskiptaráðherra, með leyfi forseta:

„Þetta getur ekki haldið áfram endalaust, það getur verið spurning um daga hvenær málþófinu lýkur, segir Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, í frétt New York Times í dag. Gylfi segist gera ráð fyrir því að ríkisstjórnin nái að semja við stjórnarandstöðuna og að Icesave-frumvarpið verði samþykkt óbreytt.“ — Ríkisstjórnin fær frumvarpið samþykkt, segir Gylfi í samtali við fréttamann.

Ég verð að segja það, virðulegi forseti, að mér finnast þessi ummæli alveg með ólíkindum hjá hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra landsins, hér er verið að ræða um efnahagslega framtíð Íslendinga og íslenskrar þjóðar. Ég vil vekja sérstaklega athygli á því að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hefur ekki tekið til máls í þessari umræðu, ekki tekið til máls. Hann hefur komið í andsvör í mjög stuttan tíma en aldrei flutt ræðu, sjálfur efnahags- og viðskiptaráðherra. (Gripið fram í: Í fjölmiðlum.) — Í fjölmiðlum já, hann hefur talað við fjölmiðla eins og hv. þingmaður kallaði fram í.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort honum finnist það ábyrgt af hæstv. ráðherra að senda skilaboð í gegnum fjölmiðla en sjá sér ekki fært að taka þátt í umræðum, sjálfur efnahags- og viðskiptaráðherra. Hver er skoðun hv. þingmanns á því? Finnst honum það viðunandi?