138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:23]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek heils hugar undir með hv. þingmanni. Það er með ólíkindum hversu litla virðingu hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra ber fyrir störfum Alþingis. Í fyrrahaust, þegar efnahagshrunið gekk yfir okkur, og þær hörmungar sem því fylgdu, var það hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra sem tjáði sig um það að menn ættu kannski að fara varlega. En í kvöldfréttunum í kvöld kom mjög virtur hagfræðingur fram, Ólafur Ísleifsson, og varaði við því og sagði að ástandið væri brothætt og alls ekki mætti samþykkja þetta strax, Icesave-skuldbindinguna.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, eftir að hann komst í ríkisstjórn, hugsi fyrst og fremst um það að sinna störfum sínum gagnvart ríkisstjórninni og hvort hæstv. ráðherra hafi kannski ekkert lært af bankahruninu og sé farinn að skella skollaeyrum við aðvörunarorðum annarra. Hvað finnst hv. þingmanni um þetta?