138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:29]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Bara til að klára þetta örstutt með hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra þá benti ég á, í lok míns andsvars, að það væru einmitt málaflokkar efnahags- og viðskiptamála, m.a. fjármálamarkaðarins, sem heyra undir hæstv. ráðherra. Með sérstakri fyrirhöfn og lagabreytingu var málum þannig komið fyrir að efnahagsmálin voru tekin úr höndum hæstv. forsætisráðherra og flutt til hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra. Þetta var gert með lagabreytingu í haust svo að hæstv. forsætisráðherra gæti einbeitt sér að því að sinna verkefnum á sviði stjórnsýsluþróunar og samfélagsþróunar og hinu og þessu sem eru hin nýju verkefni forsætisráðuneytisins. Engu að síður er það þannig að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hefur verið að tjá sig í fjölmiðlum en hefur hins vegar ekki tjáð sig við þingið. Það er algerlega óásættanlegt. Þótt hæstv. ráðherra sé ekki kjörinn þingmaður hefur hann sömu skyldur gagnvart þinginu og aðrir ráðherrar.