138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:32]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef velt mjög mikið fyrir mér hvernig á því standi að ríkisstjórnin sé í þeirri einkennilegu stöðu gagnvart viðsemjendum sínum að þeir taki í raun og veru ekki mark á henni. Ríkisstjórnin er stöðugt að segja okkur frá því að það þurfi að afgreiða þetta Icesave-mál, öðruvísi muni menn ekki veita okkur lán, öðruvísi verði ekki hægt að eiga við okkur samskipti o.s.frv. Þetta gerist að sögn ríkisstjórnarinnar þrátt fyrir að ríkisstjórnin, sem hefur meiri hluta á bak við sig hér á Alþingi, sé búin að leggja fram þetta mál og hafi þar með auðvitað gefið til kynna að hún vilji að málið verði afgreitt og samþykkt.

Það segir ákveðna sögu um þá tiltrú sem ríkisstjórnin nýtur að enginn skuli trúa því að hún hafi vald á þessu stóra máli sem hún hefur lagt fyrir þingið. Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hefur jafnframt lýst því yfir í fjölmiðlum, eins og fram hefur komið í umræðunni, að þetta mál verði afgreitt, og það verði afgreitt óbreytt. Með öðrum orðum, hvað sem menn vinna hér í þinginu, hvaða ábendingar sem kunna að koma fram þegar málið fer t.d. til nefndar milli 2. og 3. umr., mun ekki hafa áhrif á niðurstöðuna, niðurstaðan er fengin. Allt annað, allir umsagnaraðilar, öll sú vinna sem búið að er að leggja af mörkum, öll sú umræða sem hefur orðið í þinginu og utan þingsins er algjörlega tilgangslaus vegna þess að það er búið að ákveða að afgreiða málið.

Samt sem áður virðist enginn trúa ríkisstjórninni, það virðist ekki nokkur maður erlendis taka mark á þessum yfirlýsingum vegna þess að, að sögn ríkisstjórnarinnar sjálfrar, tiltrúin er ekki meiri en svo að menn munu ekki trúa því að ríkisstjórnin hafi vald á þessu máli fyrr en það er komið í höfn og búið að samþykkja það. Er ekki ríkisstjórnin sjálf að senda út upplýsingar og yfirlýsingar um fullkomið vantraust á ríkisstjórninni með því að segja að ekki sé hægt að reiða sig á það að (Forseti hringir.) hún hafi vald á þessu mikla máli?