138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

rannsókn samgönguslysa.

279. mál
[22:09]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það sem ber að hafa í huga við það mál sem við ræðum er að það rannsóknarstarf sem farið hefur fram á samgönguslysum hér á landi hefur verið í ákaflega góðum farvegi faglega séð, það rannsóknarstarf er gríðarlega mikilvægt og vel hefur tekist til. Markmiðið með slíku rannsóknarstarfi er að menn læri af þeim slysum sem verða til að koma í veg fyrir frekari slys. Ekki þarf að kafa djúpt til að sjá þann mikla árangur sem orðið hefur í slysavörnum, og þar með töldum rannsóknaþætti slysa, hér á landi á undanförnum árum. Hér hefur sjóslysum fækkað mjög mikið, flugslysum hefur fækkað mjög mikið og við höfum séð jákvæða þróun verða hvað varðar alvarleg slys í umferðinni, sérstaklega banaslys.

Maður getur skilið það markmið sem virðist m.a. felast í þessu frumvarpi, að hagræða eitthvað í yfirstjórn þessara verkefna, og út af fyrir sig hefði ég skilning á því að þessar stofnanir væru færðar saman. Með því mætti spara eitthvað í yfirstjórn og skrifstofurekstri. En þegar kemur að þeim þætti þar sem rætt er um rannsóknarnefndirnar og þann fjölda sem á að skipa í rannsóknarnefnd samkvæmt nýja frumvarpinu horfum við til þess að gert er ráð fyrir því að skipuð verði fimm manna rannsóknarnefnd og að nefndarmenn eigi að hafa sérþekkingu á sviði rannsókna og samgönguslysa. Að minnsta kosti þrír þessara nefndarmanna eiga síðan að taka þátt í rannsókn á hverju atviki samgönguslysa ásamt einum rannsóknarstjóra sem skipaður verður sem sérfræðingur á sviði viðkomandi slyss eftir því í hvaða samgöngugeira það er. Þessi rannsóknarnefnd kemur í stað þeirra sérfræðirannsóknarnefnda sem í dag fara með rannsóknir á flugslysum, sjóslysum og umferðarslysum. Ég hef miklar efasemdir um, og tek þar undir gagnrýnisraddir sem heyrst hafa um þetta atriði málsins, að þarna sé verið að fylgja nægilega vel eftir þeirri faglegu þekkingu sem nauðsynleg er til að stunda þessar rannsóknir.

Í rannsóknarnefnd flugslysa eru þrír aðilar í dag og þar hefur verið kappkostað að hafa menn með mikla reynslu, fagmenn á þessu sviði, flugmenn, flugvirkja og jafnvel flugvélaverkfræðinga. Í rannsóknarnefnd sjóslysa starfa fimm aðilar og með sama hætti hefur þar verið lögð mikil áhersla á að fagmenn komi að málum. Þar eru skipstjórnarmenn, á kaupskipum, á fiskiskipum, vélstjóri, skipaverkfræðingur, innan borðs. Það sama á við þegar kemur að umferðarslysunum, lögregla og heilbrigðisstarfsmenn eða læknir eiga m.a. aðild að þeirri nefnd.

Þrátt fyrir að hugmyndin sé, samkvæmt frumvarpinu, að þeir starfsmenn sem í dag starfa hjá þessum rannsóknarnefndum fylgi inn í þessa sameiginlegu stofnun tel ég að mikil hætta sé á því að við séum að fórna þarna faglegri þekkingu sem er fólgin í reynslu og þekkingu þessara nefndarmanna á hverju sviði. Ég hef áhyggjur af því að við fáum ekki eins ítarleg rannsóknargögn og ítarlegar niðurstöður sem hægt er að nota í fyrirbyggjandi starfi í framtíðinni. Þetta tel ég að hv. samgöngunefnd þurfi að skoða alveg sérstaklega og skoða þá gagnrýni sem m.a. hefur komið úr þessum ranni. Þarna verðum við að vanda okkur vel vegna þess að það verður oft ekki mælt í krónum eða aurum þegar kemur að því að standa faglega að þessum þáttum.

Okkur hefur tekist mjög vel upp á undanförnum árum. Við höfum náð góðu heildaryfirbragði á þennan rannsóknarþátt og árangurinn hefur ekki látið á sér standa. Það vantar inn í þetta frumvarp mögulegan rannsóknarþátt björgunaraðgerða, sem eftir Svanborgarslysið svokallaða vestur á Snæfellsnesi var settur inn í rannsóknarnefnd sjóslysa, og er oft órofa þáttur í hluta af slysi og slysarannsókn. Í rannsókn á þeim þætti geta oft komið fram mjög mikilvægar upplýsingar um aðdraganda slyss og þær aðstæður sem voru á slysstað sem geta skilað sér í mikilvægu forvarnastarfi í framtíðinni sem lærdómur sem draga ber af viðkomandi slysi. Ég veit ekki hvort einhver sérstök ástæða er fyrir því að þetta er ekki látið fylgja í frumvarpinu, að reiknað sé með því að í einstökum slysum geti rannsóknarþátturinn verið til skoðunar. Þetta á kannski ekki síst við í sjóslysum og flugslysum en ég tel fulla ástæðu til að nefndin skoði þetta alveg sérstaklega og kanni hvort ekki sé rétt að setja þennan þátt inn í frumvarpið.

Ég ítreka það að við verðum að vanda okkur alveg sérstaklega í þessu máli. Við verðum að taka tillit til þeirrar gagnrýni sem komið hefur fram frá hagsmunaaðilum. Þar yrði sérstaklega vitnað til samtaka sjómanna og samtaka atvinnuflugmanna sem hafa áhyggjur af þeirri þróun sem fram kemur í frumvarpinu og þá sérstaklega þeim faglega þætti sem ég hef farið yfir. Við höfum oft upplifað þá erfiðu umræðu sem verður eftir alvarleg slys í samfélagi okkar og hversu mikilvægt það er að þá séu öll gögn til staðar og allt sé hægt að fara yfir þannig að hægt sé að mæta særindum og erfiðleikum sem oft koma í kjölfarið, og einnig þeirri gagnrýni sem kemur upp, á sem faglegustum nótum. Ég held að hv. samgöngunefnd hafi því mjög mikilvægu hlutverki að gegna hvað frumvarpið varðar. Það er mjög umdeilt. Ég vil hvetja til þess að gefinn verði mjög góður tími til að fara yfir þetta og að þeir málsaðilar og hagsmunaaðilar sem umsögn veita verði kallaðir fyrir nefndina og tekið verði tillit til skoðana þeirra.