138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

rannsókn samgönguslysa.

279. mál
[22:34]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir síðari ræðu hans og þær upplýsingar sem þar komu fram. Ég vil sérstaklega fagna yfirlýsingu hæstv. ráðherra um að hann sjái ekkert því til fyrirstöðu að þeir starfsmenn rannsóknarnefndar sjóslysa sem hafa unnið í Stykkishólmi geti gert það áfram. Hæstv. ráðherra sagði að hann sæi ekkert því til fyrirstöðu að þeir gætu áfram búið og starfað í Stykkishólmi. Ég hlýt að líta þannig á að með þessari yfirlýsingu sé hæstv. ráðherra að segja að hann ætli ekki að veikja þá starfsemi sem nú fer fram hjá rannsóknarnefnd sjóslysa í Stykkishólmi. Ég vil árétta að þetta er auðvitað grundvallaratriði sem hlýtur að koma til álita þegar verið er að fjalla um þessi mál, þ.e. hinn byggðalegi þáttur málsins. Þess vegna fagna ég yfirlýsingu hæstv. ráðherra og árétta það að ég tel að með henni sé hæstv. ráðherra að segja að hann muni ekki hrófla við þeirri starfsemi sem þar er, annað væri þá ómark út frá orðum hæstv. ráðherra. Ég spyr hæstv. ráðherra, hann getur kannski svarað því síðar, hvort hann sé ekki sammála mér um að það væri til þess fallið að styrkja málið að það væri annaðhvort áréttað, hreinlega með ákvæði í þessum lögum eða a.m.k. gerð grein fyrir því í nefndaráliti samgöngunefndar að það sé ekki ætlunin að hrófla við þeirri starfsemi sem nú á sér stað í Stykkishólmi.