138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

samruni opinberu hlutafélaganna Flugstoða og Keflavíkurflugvallar.

275. mál
[22:51]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir hvað hann bregst vel við frumvarpinu og sér þá skynsemi sem er í því. Ég ítreka það sem ég sagði áðan, ég vona að frumvarpið fái fljóta meðferð í gegnum þingið og full sátt verði um það.

Aðeins hvað varðar þá spurningu sem hv. þingmaður lagði fyrir mig, hvort ég sæi hvar höfuðstöðvar þessa fyrirtækis yrðu. Nei, ég sé það ekki fyrir mér og hef ekki hugsað það mál. Ég hef hins vegar hugsað það að fljótlega og eins fljótt og ég get muni að sjálfsögðu verða skipuð ný stjórn fyrir fyrirtækið og sú stjórn fái það, enda eru það tillögur frá ráðgjafarhópnum, verkefni að búa til skipulagið fyrir fyrirtækið og fari í allar þær aðgerðir sem þarf að vinna í framhaldi af því og fylgja, skulum við segja, barninu áfram og koma því vel á legg. Það er svipað og við gerðum með Keflavíkurflugvöll sem tókst ákaflega vel. Sú stjórn sem þar var vann mikið og gott verk þannig að ég hef engar áhyggjur af þessu atriði. Aðalatriðið er að ég vildi mjög gjarnan koma þessu sem allra fyrst í gegnum þingið og fyrir jól svo við gætum gert þetta og miðað við áramót. Ég ítreka það sem ég segi, hugmynd mín er sú að skipuð verði stjórn og þegar stjórnin er tekin við fer hún að vinna að sameiningunni og skipulagsmálunum og öllum þeim atriðum.

Ég ítreka þakkir mínar til þingmannsins fyrir að bregðast svo vel við þessu ágæta frumvarpi sem hér hefur verið flutt eins og öllum frumvörpum sem koma frá þessari hæstv. ríkisstjórn.