138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

sjúkratryggingar.

199. mál
[22:53]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um sjúkratryggingar en frumvarpið er að finna á þskj. 223. Í frumvarpinu er lagt til að gildistöku ákvæða um að Sjúkratryggingastofnun annist gerð samninga við heilbrigðisstofnanir í eigu ríkisins og við sveitarfélög og aðra sem reka hjúkrunarheimili, verði frestað um eitt ár eða til 1. janúar 2011.

Samkvæmt IV. kafla laga nr. 112/2008, um sjúkratryggingar, sem tóku gildi 1. október 2008, skal Sjúkratryggingastofnun annast samningsgerð um heilbrigðisþjónustu, þar á meðal samninga við heilbrigðisstofnanir, sveitarfélög, sjálfseignarstofnanir, fyrirtæki og einkaaðila. Samningagerðin var áður á hendi samninganefndar heilbrigðisráðherra og heilbrigðisráðuneytisins. Samkvæmt gildistökuákvæði í 56. gr. laganna skyldi stofnunin taka við samningagerðinni í áföngum.

Sá hluti samningagerðar sem samninganefnd heilbrigðisráðherra annaðist fluttist til Sjúkratryggingastofnunar við gildistöku laganna 1. október 2008. Hluti samningagerðar sem var á hendi ráðuneytisins fluttist til stofnunarinnar á þessu ári, 1. júlí 2009. Loks var gert ráð fyrir að Sjúkratryggingastofnun tæki eigi síðar en 1. janúar 2010 við samningsgerð við heilbrigðisstofnanir í eigu ríkisins og við sveitarfélög og aðra sem reka hjúkrunarheimili.

Heilbrigðisráðuneytið hefur gert fjölda þjónustusamninga um heilbrigðisþjónustu við ýmsa aðila, svo sem líknarfélög, sjálfseignarstofnanir og einkaaðila, og hefur flutningur þeirra til Sjúkratryggingastofnunar tekið mun meiri tíma en ætlað var. Því er lagt til að gildistöku ákvæða um að gerð samninga við heilbrigðisstofnanir í eigu ríkisins og við sveitarfélög og aðra sem reka hjúkrunarheimili flytjist til Sjúkratryggingastofnunar, verði frestað um eitt ár eða til 1. janúar 2011.

Í mati fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins á kostnaðaráhrifum frumvarpsins kemur fram að verði frumvarpið óbreytt að lögum verði ekki séð að það muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.

Frú forseti. Eins og fram hefur komið er frestun lokaáfanga á flutningi samningsgerðar til Sjúkratryggingastofnunar eina breytingin sem felst í frumvarpinu. Ég hef nú gert grein fyrir ástæðum frestunarinnar. Ég legg áherslu á að þar sem hér er lagt til að ákvæði sem annars tekur gildi 1. janúar nk. verði frestað um eitt ár er nauðsynlegt að frumvarpið verði að lögum á haustþingi.

Leyfi ég mér því, virðulegi forseti, að leggja til að frumvarpinu verði vísað til hv. heilbrigðisnefndar og til 2. umr.