138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

sjúkratryggingar.

199. mál
[22:58]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka athugasemd hv. þingmanns og verð að segja að ég deili áhyggjum þingmannsins vegna þeirrar áhættu í raun sem felst í einkavæðingu á heilbrigðisþjónustu.

Ég vil líka minna á að þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs voru ekki ýkja hrifnir af frumvarpi til laga um Sjúkratryggingastofnun Íslands og við greiddum atkvæði gegn einstaka greinum frumvarpsins og lýstum andstöðu við stefnu sem þar var mörkuð í heild.

Ég vil segja að það mun væntanlega koma til kasta Alþingis á næsta ári að fara yfir lagabálkinn um Sjúkratryggingastofnun og sjúkratryggingar þegar komin er ríflega eins árs reynsla á rekstur stofnunarinnar. Markmiðið með þeirri frestun á gildistöku lokaáfangans sem hér er lögð til er m.a. að sjá til þess að betri tími gefist til að fara yfir málið áður en lokahnykkurinn er settur á það.