138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[10:17]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að óhætt sé að segja að á endanum hafi þinginu, og sérstaklega stjórnarandstöðunni að sjálfsögðu, með samhentu átaki, tekist að koma vitinu fyrir ríkisstjórnina að einhverju leyti. Menn munu a.m.k. skoða þau grundvallaratriði sem ég gat um áðan, en það þurfti töluvert mikið til. Hv. þingmaður spyr mig út í hvað hafi verið í boði, hvað þau hafi boðið fram í þessum viðræðum. Það var ekki ýkja mikið lengst af. Það var ekki annað en það að ljúka umræðunni á tilsettum degi einhvern tímann í framtíðinni, þ.e. að við fengjum tvo eða þrjá daga til þess að tala okkur út um málið, eins og það var orðað, svo að stjórnin gæti haldið áfram að líta fram hjá því. Það stóð sem sagt ekki til að gera neitt til að koma til móts við stjórnarandstöðuna á nokkurn einasta hátt. En það hafðist með samhentu átaki (Forseti hringir.) stjórnarandstöðunnar.