138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[10:19]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Við vorum búin að reyna ýmsar leiðir til að koma til móts við stjórnarliða og við bentum þeim ítrekað á að þau gætu komið hér inn með hvaða mál sem væri. Málflutningur þeirra, um að við værum á einhvern hátt að taka þingið í gíslingu, var þess vegna alla tíð algjörlega fráleitur.

Það sem stjórnarandstaðan náði fram með þessari baráttu, leyfi ég mér að segja, var það að 16 grundvallaratriði málsins verða nú skoðuðu eins vel og þarf, eins vel og þurfa þykir, að mati bæði stjórnar og stjórnarandstöðu. Þetta ætti auðvitað að vera sjálfsagt í svona stóru máli en hefur því miður ekki verið það.

Þarna eru grundvallaratriði til að mynda, svo að ég grípi bara einhvers staðar niður í skjalið, varðandi mat Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á greiðsluþoli ríkisins. Það verður skoðað. Það verður farið yfir gengisáhættuna — ótrúlegt en satt, ríkisstjórnin hafði ekki gert sér grein (Forseti hringir.) fyrir henni síðast í gær.