138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[10:53]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Margt merkilegt kom fram í ræðu hv. þingmanns, m.a. fór hún yfir orð sem hæstv. fjármálaráðherra hefur látið falla í blöðum og lýsa í raun kannski því sundi sem hæstv. ráðherra er að lokast inni í með þau mál sem hann þarf að koma í gegnum þingið. Ráðherrann virðist vera kominn út í horn í einhverju skuggasundi með mál sem eru mjög brýn og ég held að það hafi verið ástæðan fyrir því að í gær náðist hér samkomulag um að taka tillit til nánast allra óska stjórnarandstöðunnar um hvað þyrfti að skoða betur og fara betur yfir í þessu Icesave-máli.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún sé sammála mér um að þetta hafi verið gríðarlegur áfangi í þeirri baráttu sem stjórnarandstaðan hafi haft hér uppi við að ná að skoða nauðsynlega þætti áður en þetta frumvarp verður endanlega samþykkt. Samþykkt var að 16 atriði yrðu skoðuð, atriði sem öll skipta gríðarlega miklu máli varðandi framtíð og lok þessa máls. Nú hefur fjárlaganefnd fengið það hlutverk að skoða þessi atriði. Er þingmaðurinn sammála mér um að þetta hafi verið gríðarlega mikilvægt og mér liggur við að segja góður sigur stjórnarandstöðunnar í þeirri baráttu sem hún hefur haft uppi í þinginu?

Mig langar einnig að spyrja hv. þingmann hvort hún muni þess dæmi úr seinni tíð, eða frá því að hún kom á þing öllu fremur, að ráðherrar hafi látið falla jafnniðrandi orð um samþingmenn sína og hæstv. fjármálaráðherra (Forseti hringir.) hefur látið falla í blöðum.