138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:07]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður talar um umburðarlyndi Sjálfstæðisflokksins. Það getur vel verið að við höfum verið of umburðarlynd en ég get fullvissað hv. þingmann um að sú sem hér stendur er ekki lengur á þeim buxunum að vera umburðarlynd. Ég held að ég hafi kannski sýnt það með æsingi mínum hér áðan.

Ég spyr hv. þingmann, og bið hann að svara mér næst þegar hann hefur tækifæri til að halda ræðu, þar sem hann hefur ekki tækifæri aftur í andsvari, um það umburðarlyndi sem Samfylkingin fær í þessum þingsal. Við erum hér með fyrrverandi bankamálaráðherra sem var bankamálaráðherra á þessari vakt, sem var yfirmaður Fjármálaeftirlitsins, sem var í hringiðunni miðri og vissi nákvæmlega hvað hver sagði og hver gerði. Þessi hv. þingmaður, Björgvin G. Sigurðsson, hefur enn ekki tekið til máls um Icesave-málið. (Forseti hringir.) Segir það eitthvað um það umburðarlyndi sem Samfylkingin nýtur í þessu þjóðfélagi?