138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:26]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir orð hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur um að ég er svo sannarlega ekki þreytt og er tilbúin til að berjast áfram. Mér finnst alveg ótrúlegt að horfa upp á vinnubrögðin hjá stjórnarliðum og ég er sannfærð um að fólk hefur hreinlega ekki kynnt sér málið, það getur ekki verið þar sem þetta fólk hefur ekki sést í umræðunni. Miðað við umfang málsins og afstöðu fólks getur hreinlega ekki verið að það sé búið að kynna sér málið til hlítar, meira að segja þeir sem hafa setið í fjárlaganefnd þegar þeir tala um þetta eins og hvert annað verkefni sem þurfi að ljúka, eins og eitthvert uppvask sem bíður í eldhúsinu heima.

Þetta eru ansi mörg atriði, 16 liðir, á blaðinu sem var undirritað í gærkvöldi vegna kröfu stjórnarandstöðunnar um að farið verði í gegnum m.a. hvort frumvarpið samrýmist ákvæðum stjórnarskrárinnar, sem við höfum öll heitið að hlíta, hversu miklar fjárhagsskuldbindingar samningarnir feli í sér, hvaða efnahagslegar hættur fylgi því að hafa skilyrðislausa greiðsluskyldu á vöxtum, að könnuð verði áhrif breytinga sem gerðar voru á efnahagslegu fyrirvörunum, sem ég hef haft miklar áhyggjur af, og áhrif breyttra reglna á úthlutun úr þrotabúi Landsbankans og hver möguleg gengisáhætta sé. Það er líka talað um að við þurfum að skoða nýjar upplýsingar sem hafa verið að koma fram hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og margt margt fleira. Ég spyr: Er þetta ekki eitthvað sem hefði átt að vera búið að skoða hjá fjárlaganefnd áður en málið var rifið þaðan út af stjórnarliðum, þar sem þeir töldu að málið væri fullrætt og það væru ekki lengur neinar spurningar, þegar liggur núna fyrir undirritað skjal í 16 liðum að kröfu stjórnarandstöðunnar þar sem á að fara í gegnum mál sem eru ekki fullkönnuð og þessar upplýsingar liggja ekki fyrir, þar á meðal t.d. gengisáhættan?