138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:32]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir það með hv. þm. Eygló Harðardóttur að vissulega á forseti Alþingis mikið hrós skilið fyrir það að ná að leysa þetta mál á þennan hátt. Það kemur fram í máli hv. þingmanns að hún hafi litla trú á því að einhver alvara sé að baki þessu af hálfu forsvarsmanna ríkisstjórnarinnar. En ég hef þá trú að þeir þingmenn sem hér sitja í þingsölum hafi sjálfstæðar skoðanir og þeir ætli sér ekki að hlýða í blindni forustumönnum ríkisstjórnarinnar. (Gripið fram í.) Ég hef þá trú vegna þess að það er það sem gerðist hér í sumar.

Enn og aftur skora ég á það hugrakka fólk sem þar sýndi að það er með bein í nefinu og þorði að láta rökin stjórna málinu en ekki beinar fyrirskipanir frá forsvarsmönnum ríkisstjórnarinnar. Þess vegna stend ég hér og er ekki þreytt. Ég fagna því að hv. þm. Eygló Harðardóttir er heldur ekki þreytt vegna þess að við skulum ekki gefast upp í þessu máli.

Það vaknar hjá manni smávon, frú forseti, þegar maður les Morgunblaðið og reynir að átta sig á skoðunum stjórnarþingmanna. „Ég fylgist bara með“, segir hæstv. menntamálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir. Hv. þingmenn og ráðherrar stjórnarliðsins eru þó að fylgjast með, les maður í Morgunblaðinu .

Ég hef enn þá trú, frú forseti, að þingmenn komi til með að skoða þau gögn sem verða til í kjölfar þess samkomulags sem hér fæddist í gær, skoði þau gögn með opnum huga og láti ekki undan ofurþrýstingi ríkisstjórnarinnar og ráðherra hennar sem m.a. hafa spáð miklum frostavetri og þrátt fyrir ósvífinn fjölpóst á alla samfylkingarmenn með (Forseti hringir.) harðsvíruðum áróðri án nokkurra raka.