138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:37]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er vissulega svo að margir löglærðir menn og miklir fræðimenn hafa tjáð sig í þessu máli og forsvarsmenn ríkisstjórnarflokkanna hafa verið ósparir á að vísa í rök þeirra sem hafa frekar hallast að málstað ríkisstjórnarflokkanna. En þegar vafi rís um það hvort Alþingi Íslendinga sé að samþykkja frumvarp og gera það að lögum sem brjóti gegn sjálfri stjórnarskránni getur maður einfaldlega ekki tekið léttvægt á slíkum málflutningi. Ég hallast að því, frú forseti, að það ákvæði sem hæstaréttarlögmaðurinn Þorsteinn Einarsson hefur ritað grein um í Morgunblaðið í dag sé brot á stjórnarskránni. Ég hallast að því að það sé réttur skilningur.

Ég vísa, með leyfi forseta, í niðurlag greinarinnar. Þar segir:

„Þar sem fyrrgreint ákvæði frumvarpsins brýtur augljóslega gegn stjórnarskránni er það í raun markleysa. Alþingi ber skylda til að standa vörð um stjórnarskrá Íslands og ber því að fella frumvarpið. Samþykkt frumvarpsins myndi verða Alþingi til ævarandi skammar og ljótur blettur í sögu eins elsta þings þjóðanna.“

„Til ævarandi skammar,“ fullyrðir hæstaréttarlögmaðurinn og undir því getum við einfaldlega ekki setið, frú forseti. Við verðum að kanna það ofan í kjölinn. Ég er þess fullviss að fjárlaganefnd mun standa fyrir slíkri vinnu og það verði kannað í þaula. Ég fullyrði að enginn hv. þingmaður hefur áhuga á því að brjóta stjórnarskrána. Við höfum öll undirritað drengskapareið að stjórnarskránni og okkur ber full og takmarkalaus skylda til þess að gæta þess í hvívetna að Alþingi Íslendinga virði stjórnarskrána. Hvernig væri annars fyrir okkur komið, frú forseti? Ég fullyrði að hv. þingmenn láta ekki blekkjast heldur koma til með að kanna þetta til þrautar.