138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:39]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú hafa Icesave-flokkarnir, Samfylking og Vinstri græn, reynt að keyra þetta mál áfram af mikilli hörku og augljóst að margir hv. þingmenn eru undir mikilli pressu að „gera enga vitleysu“ í þessu máli. Væntanlega er enn og aftur verið að hóta stjórnarslitum, að vinstri stjórnin fari frá og allt slíkt. Ég benti á það í gær að stjórnunarstíll forsætisráðherra Íslands er þá ekki ólíkur stjórnunarstíl forsætisráðherra Noregs miðað við þær fréttir sem bárust frá Noregi fyrir skömmu.

Eitt af þessum 16 atriðum sem við lögðum áherslu á að yrði skoðað og verður skoðað er lögfræðiálit sérfræðinga í enskum lögum á texta samninganna. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún sé þeirrar skoðunar að þetta sé gríðarlega mikilvægt í ljósi þess að um samninginn gilda ensk lög. Nú ítreka ég það sem ég hef áður sagt að ég er ekki sérfræðingur í enskum lögum eða lögum yfirleitt, en einhvern veginn finnst manni að mikilvægt sé að fá sérfræðitúlkun á því hvernig lagatextinn yrði væntanlega túlkaður og með hann farið fyrir breskum dómstólum, líkt og ég held að erlendu aðilarnir, Bretar og Hollendingar, hljóti að hafa gert varðandi íslensk lög vegna þess að þeir eru greinilega skelfingu lostnir að fara með málið fyrir íslenska dómstóla.

Mig langar að velta því upp við hv. þingmann hvort hún telji það mikilvægan punkt að fá þetta álit út frá þeirri hugsun sem ég setti hér fram.