138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:41]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Fyrir þeim sem sækja þurfa rétt sinn fyrir enskum dómstólum virðast þar miklar lagaflækjur viðhafðar og mjög flókin lögfræði ástunduð sem varla nokkur kemst yfir nema fuglinn fljúgandi og þá innlendir aðilar sem unnið hafa í lögfræðigeiranum í áratugi. Ég tel því gríðarlega mikilvægt að forseti Alþingis beitti sér fyrir því hér í gær að þetta atriði yrði kannað nánar. Ég tel það gríðarlega mikinn ávinning og mikinn áfanga og ég tel augljóst að það sem kemur út úr þeirri athugun verður ekki eitthvert plagg sem þingmenn geta stungið ofan í skúffu og ætla sér ekki að skoða.

Ég er þess fullviss að þetta mál og þessi áfangi í þeirri vinnu sem við í stjórnarandstöðunni höfum verið að reyna að koma í gegn komi til með að skipta sköpum, ekki bara gagnvart því hvernig þetta frumvarp fer í gegnum þingið heldur líka fyrir framtíðina og hvernig við ætlum að rökstyðja það hvernig við tökum ákvörðun í þessu máli. Ég tel að það sé grundvallaratriði að þetta liggi fyrir þegar við sem nú sitjum á þingi þjóðarinnar komum til með að þurfa að útskýra fyrir komandi kynslóðum hvers vegna við tökum þá afstöðu sem liggja mun fyrir þegar þessu máli lýkur.

Hv. þingmaður minntist líka á það hvort stjórnarslit lægju í loftinu. Alls ekki, frú forseti. Þetta er erfitt mál, við áttum okkur öll á því. Við sem hér stöndum berum öll ábyrgð á því að koma þjóðinni upp úr þeirri efnahagslægð sem hér er. Það eru einfaldlega rangfærslur af hálfu ríkisstjórnarflokkanna að halda því fram að þetta sé atlaga að því að ríkisstjórnin starfi áfram í landinu. Ef þessi ríkisstjórn vill starfa áfram þá gerir hún það einfaldlega, það hlýtur að vera eitthvert samkomulag (Forseti hringir.) á milli stjórnarflokkanna sem hér ráða. Ég ætla ekki að fara að bylta ríkisstjórninni út af þessu máli, en (Forseti hringir.) ég krefst þess að ákvörðun sé tekin á málefnalegum grunni og öll rök færð fram í málinu.