138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:55]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fínu yfirferð. Þingmanninum gafst ekki tími til að fara yfir allar staðreyndir málsins eðli málsins samkvæmt, enda ekki nema 10 mínútur til umráða. Það sem hv. þingmaður benti á er alveg hárrétt, dag eftir dag hefur með skýrum og skilmerkilegum hætti verið reynt að benda ríkisstjórninni á galla þessa máls og því hefur ekki verið svarað.

Maður veltir því óneitanlega fyrir sér hvort það kunni að vera af þeirri einföldu ástæðu að innst inni viti þingmenn stjórnarinnar að þeir séu að gera rangt, þeir viti að þeir séu ekki með rökin til að verja ákvörðun sína. Þá kemur upp næsta spurning: Eru menn eitthvað betur settir þegar horft er til framtíðar með það að bera því við að þeir hafi ekki þekkt málið eða ekki kynnt sér það þegar staðreyndir þess liggja á endanum fyrir? Eins og hv. þingmaður fór rækilega yfir er búið að benda á svo fjölmörg atriði sem hvert og eitt ætti að nægja mönnum, ekki aðeins til að hugsa sinn gang heldur vera handvissir um að eina vitið sé að ýta á nei-takkann í þessum fráleita málatilbúnaði. Þetta kemur enn, síðast í dag birtist í Morgunblaðinu grein eftir hæstaréttarlögmanninn Þorstein Einarsson undir yfirskriftinni „Skýrt brot á stjórnarskrá“ þar sem hann fullyrðir að Alþingi megi ekki samþykkja þetta frumvarp.

Ef við hugsum nokkur ár fram í tímann og veltum því upp að þegar allt sem reynt hefur verið að vara við núna er komið fram, ef svo illa fer að þetta frumvarp verði samþykkt, má spyrja: Er það einhver afsökun að mati hv. þingmanns fyrir hæstv. ráðherra og hv. þingmenn stjórnarflokkanna að þeir hafi ekki þekkt málið?