138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[12:51]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg rétt að þetta eru viðamiklar aðgerðir en aðstæður okkar kalla á slíkt. Við verðum öll að gera okkar besta í því að glíma við aðstæður og gera það sem gera þarf sem talið er nauðsynlegt til að ná þeim árangri sem við stefnum að bæði í ríkisfjármálum og á öðrum sviðum.

Alþýðusambandið hefur lýst áhyggjum sínum af vissum þáttum þessa máls, það er rétt, en það hefur þó um leið t.d. fagnað upptöku þrepaskatts og fagnað því sérstaklega að reynt sé að verja lægstu laun með þeirri útfærslu sem hér er á ferðinni. Þessar skattbreytingar og umfang þessara aðgerða eru mjög í takti við þá aðlögunaráætlun sem lagt var upp með síðastliðið vor. Það er rétt að það eru kannski ekki nákvæmlega þau hlutföll sem menn sáu fyrir sér að meðaltali milli t.d. niðurskurðar og skattahækkana yfir allt tímabilið en þetta er upphafsáfanginn og stærsti einstaki áfanginn, og ég held að það sé mjög vel kortlagt að um það bil sú blanda af niðurskurði og tekjuöflun sem hér er á ferðinni sé það sem bæði er efnahagslega skynsamlegast og gerlegast við þessar aðstæður.