138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[12:52]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Okkar bíður mikið verk í efnahags- og skattanefnd að fara yfir heildarsamhengið gagnvart þeim breytingum á skattkerfinu sem ríkisstjórnin áformar núna. Ég vil minna hæstv. ráðherra á hvaða áhrif það hefur á skuldir heimilanna þegar menn hækka bensín, áfengi og virðisaukaskatt og það er annað en í mörgum öðrum löndum, um leið og ríkisstjórnin beitir sér fyrir þeim hækkunum hækka lán heimilanna um tugi milljarða króna. Ég endurtek því enn og aftur hvort hæstv. fjármálaráðherra hafi gert úttekt á því hvort heimilin í landinu ráði við alla þá skattlagningu sem hér um ræðir. Ég efa það og veit að þetta verður mörgum mjög erfitt en ég spyr enn og aftur að því hvort þetta hafi verið skoðað. Og svo spyr ég hæstv. ráðherra hvort það hafi ekki komið til greina, um leið og menn vinna að umfangsmiklum breytingum, róttækum breytingum á skattkerfinu, að hækka skattleysishlutfallið enn frekar og tekjuskattsprósentuna til að koma til móts við þá lægst settu (Forseti hringir.) og menn gæfu sér þá betri tíma til að fara yfir þær grundvallarbreytingar sem verið er að gera á skattkerfinu.