138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[12:56]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Í hinum besta heimi allra heima stæðum við svo vel að vígi að við gætum fleytt okkur í gegnum þessa niðursveiflu án þess að draga nokkuð úr ríkisútgjöldum og án þess að hækka skatta, jafnvel gætum við lækkað skatta. Ef við hefðum staðið betur að vígi og skattkerfið hefði ekki verið útleikið eins og það var leikið á undanförnum árum hefði þetta verið mögulegt. Ef eðlilegu skattstigi hefði verið haldið á árunum 2003–2007, hátekjuskattur ekki felldur niður og menn ekki lækkað skatta á hærri laun og fjármagnstekjur í miðri þenslunni, hefðum við átt að eiga nokkur hundruð milljarða innstæður í Seðlabankanum sem við hefðum getað gripið til nú en þær eigum við ekki. Þvert á móti fór Seðlabankinn á hausinn haustið 2008 og ríkið varð að taka á sig byrðar upp á um 300 milljarða kr. vegna þess. Aðstæður okkar marka okkur það hvað við getum gert í þessum efnum og það er engin önnur leið en að takast á við þetta hér og nú frá báðum hliðum, bæði með því að draga úr útgjöldum og afla aukinna tekna.