138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[12:59]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég mun flytja ræðu á eftir og fara yfir málið í hinu víða samhengi. En ég get ekki fellt mig við það að hæstv. fjármálaráðherra komi ítrekað upp í ræðustól Alþingis og láti hafa það eftir sér í fjölmiðlum að með aðgerðum ríkisstjórnarinnar sé verið að lækka skatta á þá sem hafa 270 þúsund kr. eða lægra í mánaðarlaun. Ég vil biðja hæstv. fjármálaráðherra að koma upp og bera saman óbreytt skattkerfi, sem gerir ráð fyrir því að persónuafsláttur verði færður upp til verðlags núna um áramótin og að auki verði persónuafslátturinn hækkaður um 2.000 kr. í samræmi við samkomulag sem gert var á síðasta ári, og svo þessar aðgerðir ríkisstjórnarinnar. Er það ekki satt og rétt að ef skattkerfið væri látið algerlega ósnert kæmi það betur út fyrir þann launahóp sem hér er verið að ræða um?