138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[13:03]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er held ég ekkert mjög frjótt og skilar okkur ekki langt. Ég held að við eigum (Gripið fram í.) fyrst og fremst að horfa á það hvað við okkur blasir í þessum efnum. Það er alveg rétt, og við skorumst ekki undan pólitískri ábyrgð á því að við erum að afla þessara auknu tekna. Hvernig kemur það þá út fyrir mismunandi hópa? Veruleikinn er sá að bara til þess að halda óbreyttum tekjum í tekjuskattskerfinu og ef við hefðum ætlað að verðtryggja persónufrádrátt að fullu plús að bæta við hann 2.000 kr. (Gripið fram í: Eins og lög gera ráð fyrir.) — vilt þú fá orðið, hv. þingmaður? — hefðum við þurft að hækka upphafsprósentuna um 2,3 prósentustig. Það hefði heldur betur tekið í fyrir alla þá sem væru að byrja að borga skatta.

Hefði það verið réttlátari og sanngjarnari skattbyrði sem hefði lagst mjög þungt (Gripið fram í.) á laun strax ofan við 120.000–130.000 kr.? (Gripið fram í: Við erum ekki …) Með þessu náum við að hlífa öllum upp í 270.000 kr. (Forseti hringir.) og það er mikið unnið við það. Þetta er það fólk og þau heimili (Forseti hringir.) landsins sem hafa úr minnstu að moða og hjarta okkar á að slá með. (Gripið fram í.)

Ég veit auðvitað alveg hvern Sjálfstæðisflokkurinn hugsar um, það er hátekjufólkið í landinu. (Gripið fram í.)