138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[13:04]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ríkisstjórnin er að leggja fram skattálögur í mörgum liðum, skattleggja fyrirtæki og heimili í landinu, auk þess sem hún gefur fjárfestum úti í heimi sem hugsanlega vilja fjárfesta á Íslandi það merki að ekkert sé að marka samninga sem íslenska ríkið gerir um orkukaup.

Sjálfstæðismenn hafa bent á aðra leið sem er skattlagning séreignarsparnaðar. Hana þurrkar hæstv. fjármálaráðherra léttilega af borðinu og ræðir ekki frekar. Sú leið kemur hvorki við sjóðina né fólkið sem sparar. Hún kemur ekki við neinn. Ég skora á hæstv. ráðherra að koma nánar inn á það af hverju hann hafnar þessu. Þetta er sú leið sem gerir allar skattahækkanir ríkisstjórnarinnar óþarfar og við getum meira að segja lækkað tryggingagjaldið sem er ekkert annað en skattur á atvinnu.