138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[13:06]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Í fyrsta lagi erum við að rýmka réttindi manna til útgreiðslna á séreignarsparnaði og það hefur að sjálfsögðu jákvæð tekjuáhrif fyrir ríki og sveitarfélög. Sú aðgerð hefur heppnast mjög vel á þessu ári og gerir það vonandi og örugglega áfram á næsta ári. (Gripið fram í.) Það hefur að sjálfsögðu hliðstæð áhrif að sínu leyti við það sem hér er verið að tala um.

Í öðru lagi svaraði ég þessu ítarlega í ræðu minni, í efnahagslegum skilningi er þetta lántaka rétt eins og hver önnur. (Gripið fram í: Neei.) (Gripið fram í: Nei.) Ó, jú, í efnahagslegum skilningi er þetta lántaka og þetta er að þessu sinni lántaka í væntum tekjum framtíðarinnar í staðinn fyrir hefðbundna lántöku hjá einkaaðilum. Engu að síður höfum við verið í viðræðum við lífeyrissjóðina í allt haust um möguleika af þessu tagi. Þar á meðal hafa að sjálfsögðu haft áhrif þær hugmyndir sem sjálfstæðismenn hafa spilað út. Við höfum rætt við lífeyrissjóðina, reyndar hafa þessar hugmyndir verið til skoðunar í fjármálaráðuneytinu frá því í febrúar/mars í fyrravetur hvað varðar séreignarsparnaðinn sérstaklega. Við höfum verið í viðræðum við lífeyrissjóðina undanfarnar 2–3 vikur um þetta atriði og þeim er ekki lokið.