138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[13:07]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra segist vera í viðræðum við lífeyrissjóðina um hvort eigi að skattleggja þá. Hefur hann rætt við Jón Jónsson á götunni um hvort hann eigi að skattleggja hann, t.d. með hækkun bensíngjalds? Þegar hæstv. ráðherra segir að það ætti að hlífa lægstu laununum er það rétt, en hann skattar þau jafnframt, t.d. í gegnum bensíngjald. Láglaunafólk keyrir líka bíla og greiðir alls konar skatta annars staðar. Fyrir utan það eins og hv. þm. Bjarni Benediktsson benti á ættu samkvæmt gildandi lögum skattar á lágtekjufólk að vera lægri en ríkisstjórnin gerir ráð fyrir. Svo getur verið að það sé efnahagsleg nauðsyn að gera eitthvað annað, en þá eiga menn ekki að segja að það sé verið að lækka skattana á það. Menn eiga ekki að segja það, menn eiga að segja satt. Samkvæmt gildandi lögum mundi lágtekjufólkið borga minni skatta en því miður höfum við ekki efni á því þannig að við skulum breyta gildandi lögum. Það er akkúrat það frumvarp sem við erum að ræða um núna.