138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[13:25]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarna Benediktssyni fyrir ræðu hans. Ég hef áhuga á að spyrja þingmanninn um þessa einkennilegu fullyrðingu frá ríkisstjórninni að það sé nauðsynlegt að hækka skatta vegna þess að þeir hafi lækkað svo mikið, þrátt fyrir að tölur sýni fram á að skattbyrði hafi aukist. Ég vil benda hv. þingmanni á að nýjar tölur hafa komið fram sem sýna að skattar sem hlutfall af landsframleiðslu hafa hrunið að undanförnu og það er að sjálfsögðu afleiðing af hruninu. Mig langar því að spyrja hv. þingmann hvort hann sé sammála því að það sé nauðsynlegt að hækka skatta og þá hvaða skatta, fyrir utan þá tillögu sem komið hefur frá sjálfstæðismönnum um séreignarsparnaðinn. Eru það einhverjir aðrir skattar sem Sjálfstæðisflokkurinn sér fyrir sér að megi hækka? Síðan hef ég mikinn áhuga að heyra frá þingmanninum hvort hann telur að áhrifin af hruninu séu raunverulega öll komin fram.

Sú ríkisstjórn sem hv. þingmaður studdi og þessi ríkisstjórn, bæði sem minnihlutastjórn og sem meirihlutastjórn, hafa verið að hækka sömu skattana, sem sagt áfengisgjaldið, bensín-, olíu- og tryggingagjaldið. Ég held að tryggingagjaldið sé að hækka í þriðja skiptið. Telur hv. þingmaður að þessar áætlanir munu standast og hvort áhrifin, tekjustofnar ríkisins, séu raunverulega komin fram. Í seinna andsvari mínu hef ég áhuga á því að fara í gegnum tölur þar sem rannsökuð hafa verið áhrif af þeim efnahagskreppum sem verið hafa alla vega síðustu öldina.