138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[13:33]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarna Benediktssyni kærlega fyrir innlegg hans til þessarar umræðu. Það er mikilvægt að fá fram sjónarmið formanns Sjálfstæðisflokksins í henni. Ég vil af þessu tilefni spyrja hv. þingmann hvort hann sé því raunverulega ósammála að það hafi verið óskynsamlegt, og verið skammsýni af okkur í þinginu, að ráðast á hápunkti góðærisins í umtalsverðar skattalækkanir sem nú eftir hrun virðast hafa verið vanhugsaðar þegar ríkissjóð vantar sárlega tekjur. Ég vil spyrja hvort þingmaðurinn sé virkilega á móti því að við lærum það af hruninu að í aðdraganda þess höfum við gengið of langt í skattalækkunum og afturköllum þær skattalækkanir að nokkru marki.

Ég vil líka spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki ástæðu til að draga þá ályktun af hruninu að við þurfum í skattkerfinu að auka tekjujöfnunina í samfélaginu. Síðast en ekki síst, um leið og ég þakka hv. þingmanni fyrir tillögu Sjálfstæðisflokksins um ýmsa aðra hluti eins og skattlagningu á séreignarsparnað og annað slíkt, sem hæstv. fjármálaráðherra hefur upplýst að enn sé verið að ræða við lífeyrissjóðina um, vil ég spyrja hv. þingmann: Á virkilega að skilja ræðu hans svo að hann styðji enga af þeim tillögum til skattbreytinga sem kynntar hafa verið af hæstv. fjármálaráðherra hér í dag? Er engin af þeim tillögum þess eðlis að Sjálfstæðisflokkurinn geti á málefnalegum grunni stutt hana? Er Sjálfstæðisflokkurinn yfir höfuð á móti öllum skattabreytingum eða getur hv. þingmaður tilgreint einhverjar skattabreytingar í tillögum hæstv. fjármálaráðherra sem Sjálfstæðisflokkurinn getur fellt sig við?