138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[13:38]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir skýr svör. Við erum þó sammála um að það var misráðið af okkur að ráðast í skattalækkanir þegar góðærið var í hámarki á síðasta kjörtímabili og það er vel. Við erum hins vegar ósammála um að nauðsynlegt sé að grípa til aðgerða til að leiðrétta þau mistök. Hér heldur hv. formaður Sjálfstæðisflokksins því fram að hægt sé að fara í gegnum þennan skafl án þess að grípa til skattahækkana. Ég verð að segja, virðulegi forseti, að ég tel að það sé algerlega óraunsæ yfirlýsing af hálfu formanns Sjálfstæðisflokksins að hægt sé að fara í gegnum stærsta átak í ríkisfjármálum í Íslandssögunni án þess að gera nokkrar skattabreytingar, að hægt sé að loka stærsta gati á ríkissjóði í sögunni án þess að fara í neinar skattahækkanir, að hægt sé að taka það allt á útgjaldahliðinni sem að uppistöðu til eru bætur og velferðarþjónusta. Það er einfaldlega fullkomlega óraunsætt og ég tel raunar að ekki sé pólitískur vilji fyrir því í röðum sjálfstæðismanna að ráðast í þann blóðuga niðurskurð sem slíku mundi fylgja og sannarlega þeim neikvæðu áhrifum fyrir efnahagslífið sem það líka hefur rétt eins og skattahækkanir. Hér er ekki góðra kosta völ heldur valið á milli vondra kosta í því að leysa úr erfiðri stöðu.

Ég verð að síðustu jafnframt að lýsa mig ósammála því að þetta sé ekki tímapunkturinn til að auka tekjujöfnun í kerfinu. Ég held að þetta sé einmitt tímapunkturinn, eftir hrun, eins og við fórum í gegnum, að draga þá ályktun að við gengum of langt í því að búa til ólíkar stéttir í landinu, að búa til gríðarlega auðmenn og mikla fátækt. Við eigum að læra af því og gera nauðsynlegar breytingar á skattkerfinu til að vinda ofan af vitleysu eins og þeirri sem við gerðum þegar við gengum of langt í skattalækkun.