138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[13:57]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að taka undir með hv. þm. Birki Jóni Jónssyni að við skattleggjum okkur ekki út úr kreppunni. Það er nákvæmlega þess vegna sem stjórnarflokkarnir í nánu samráði sín á milli hafa ákveðið að fara blandaða leið sem er ágætlega útfærð bæði í þessum skattafrumvörpum sem og í fjárlagafrumvarpinu. Ég vil þó segja að það er mjög þungbært á tímum sem þessum að þurfa að grípa til skattahækkana en þá er gott að rifja upp að það er kannski afleiðing þeirrar skammtímahugsunar sem ríkti í efnahagsstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks þar sem skattar voru lækkaðir á mesta þensluskeiði Íslandssögunnar. En við fáum væntanlega tækifæri til að ræða um það síðar, ég og hv. þingmaður, en ég vildi beina þeirri spurningu til hans hvort hann, sem virðist vera jafnannt um lífeyrissjóðina og þeirri sem hér stendur, telji að við séum að standa vörð um lífeyrissjóðina með því að sækja þangað tekjur nú sem á að nota í framtíðinni.