138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[14:05]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér skattahækkanir og leiðir til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð. Þeir sem töluðu rétt á undan mér settu þetta mál að einhverju leyti í samhengi, að vegna Icesave-klúðursins m.a. væri verið að hækka hér skatta. Þetta útrásarskeið hefur verið dýrt ævintýri fyrir Íslendinga, það er erfitt að reka ríkissjóð þessa dagana, þessa mánuðina og þessi árin. Hvar á að skera niður og hvar á að hækka skatta? Ég get svo sem ekki haldið því fram að hæstv. fjármálaráðherra gangi illt til með þessum tekjuskattshækkunum og skattahækkunum, eins og sumir hafa verið að gera hér, en hann býr ekki við gott bú og það er vandasamt verk sem hæstv. ráðherra og fjármálaráðuneytið þurfa að takast á við.

Það er verið að tala hér um að fara blandaða leið, skera niður og hækka skatta í einhverjum ákveðnum hlutföllum. Að mínu viti er hægt að gera það með blandaðri leið en jafnframt með niðurskurði og minni skattahækkunum, eins og hér er verið að fara fram á. Ég aðhyllist sjálfur þá hugmyndafræði sem kemur fram í þessum skattafrumvörpum, þ.e. að hér verði þrepaskipt skattkerfi svo fremi sem hátekjuskattur er á raunverulegar hátekjur. Ég aðhyllist þá jafnaðarhugmynd sem er í þessum frumvörpum líka, að þeir sem hafi meira fé á milli handanna greiði hlutfallslega meira til samfélagsins einfaldlega vegna þeirrar staðreyndar að þeir eru betur aflögufærir. Það gerir okkur vonandi kleift að búa í betra samfélagi fyrir alla þegna samfélagsins. Að því leyti er gott að hafa þessa flokka við völd.

Það má hins vegar velta því alvarlega fyrir sér, og þar koma athugasemdir mínar og gagnrýni helst fram, að á þessum tíma er ekki tímabært að hækka skatta. Heimilin, almenningur, standa frammi fyrir því að vera við mörk greiðsluþrots, þau standa illa, almenningur stendur jafnvel ekki undir hækkunum á sköttum. Í þessum þremur frumvörpum kemur fram að hækkun á virðisaukaskatti og fleiri óbeinum sköttum mun leiða til 14,7 milljarða kr. tekna fyrir ríkissjóð. Samhliða því munu þó skuldir heimilanna hækka um einhverja tugi milljarða vegna verðtryggingarinnar þannig að hér er verið að vega enn frekar að skuldugum heimilum landsins með hækkunum á óbeinu sköttunum.

Tekjurnar af hækkun beinu skattanna eru óljósar. Ég var að reyna að lúslesa þetta frumvarp og ég sé ekki nákvæmlega hvaða tekjur eiga að koma í kassann af þessum hækkunum á tekjusköttum. Umhverfis- og auðlindaskattar eru að mínu mati tímabærir. Við búum í heimi þar sem þrengir að vegna hins kapítalíska neyslusamfélags sem öllu eyðir og það þarf að fara að setja hér skatta á það tjón sem slíkt samfélag veldur. 2,2 milljarðar eiga að koma þar inn.

Heimili landsins eru í vanda og þola þetta annaðhvort ekki eða illa og það er ekki gert nægilega mikið fyrir þau. Það er ekki verið að aðlaga skuldir þeirra nægilega vel að þeim raunveruleika sem þau búa við. Það er ekki verið að lækka höfuðstól íbúðalána, sem mundi hleypa nýju lífi í efnahagslífið og nýju lífi í fólk vegna þess að þá mundi aukast bjartsýni á framtíðina. Það er hlutur sem ég held að menn verði að velta svolítið fyrir sér. Ég tala við svo margt fólk sem sér ekkert ljós fram undan og það þurfa að koma aðgerðir af hálfu ríkisstjórnarflokkanna til þess að kveikja það ljós og gera fólki betur grein fyrir því að veruleiki þess muni verða betri en hann er nú.

Það er vont að hækka skatta á almenning og fyrirtæki núna. Það verður kannski ekki undan því komist að einhverju marki en hvað fyrirtækin varðar er hér fyrst og fremst verið að hækka tryggingagjaldið. Tryggingagjaldið er gríðarlegur baggi á fyrirtækjarekstri. Það sem ég sakna helst í þessum skattahækkunum er að það vantar nýja hugsun um nýjar leiðir í skattheimtu, algjörlega nýja hugsun. Hér er verið að fara þessar gömlu hefðbundnu leiðir, að hækka skatta á fyrirtæki þegar löngu er orðið ljóst að tekjuskattar á fyrirtæki eru mjög óstöðugur og vondur tekjustofn fyrir ríkissjóð. Hér mætti auðveldlega hugsa upp nýjar leiðir til mikillar einföldunar á skattkerfinu hvað varðar skattheimtu á atvinnustarfsemi.

Það vantar algjörlega nýja hugsun hvað varðar nýja tekjustofna fyrir ríkissjóð. Verið er að fara þessa gömlu, þekktu leið að hækka tekjuskattsprósentuna á almenning í landinu. Almenningur á engin samtök til að knýja fram breytingar eins og Samtök atvinnulífsins og fjöldinn allur af öðrum greinum samfélagsins. Tekjuskattshækkanir á almenning í landinu fara því í gegn án mikillar mótstöðu frá almenningi. Ég lýsi eftir nýrri hugsun í þessum málum og nýjum leiðum í skattheimtu. Ef ekki núna þá hvenær?

Hér höfum við dæmi úti um allt þar sem t.d. náttúruauðlindir þjóðarinnar eru einfaldlega gefnar þeim sem nýta þær, endurgjaldslaust og fluttar úr landi. Hér er um að ræða ferðaþjónustu, hér er um að ræða stóriðju og hér er um að ræða fiskveiðar, sjávarútveg. Þetta eru þrjár helstu auðlindir þjóðarinnar: Það er hin fallega náttúra sem ferðamenn koma í síauknum mæli til að berja augum og njóta. Hér er um að ræða útflutning á áli og járnblendi þar sem raforkan, einn meginhráefniskostnaðurinn, er afhent þeim nánast endurgjaldslaust. Það er rétt svo og þó varla að þær virkjanir sem þarf að reisa til þess að þjóna þessum verksmiðjum standi undir sér. Svo er það aðalmálið, sjávarútvegurinn, gjafakvótakerfið sem hefur verið gefið útgerðarmönnum endurgjaldslaust eftir ákveðnu fyrirkomulagi í bráðum tvo áratugi ef ekki meira, fyrirkomulag sem er svo óréttlátt og brenglað að engu tali tekur. Það eru engar hugmyndir í þessum skattahækkunarfrumvörpum um að skattleggja þessar auðlindir. Að vísu hefur í frumvarpi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra komið fram tillaga um 120 kr. gjald á hvert kíló af veiddum skötusel, sem er skref í rétta átt. Með því að skattleggja þessa geira mjög hóflega er hægt að ná inn umtalsverðum tekjum fyrir ríkissjóð, en ríkisstjórnin kýs að fara ekki þá leið.

Ég hef slegið á örfáar tölur í þessu sambandi og mun fara hér stuttlega yfir þær. Gistináttagjald á ferðaþjónustu, sem er algengt í fjölmörgum nágrannalöndum, gæti, ef miðað væri við t.d. 11 evrur á hverja gistinótt er hér um tæplega 5,5 milljarða kr. tekjur að ræða fyrir ríkissjóð. Þess má geta að þessi leið er náttúrlega miklu heppilegri en það sem menn hafa verið að tala um, að setja upp hlið á Þingvöllum og rukka menn fyrir aðgang. Það er ekki vinnandi vegur að vera með slíka skattlagningu.

Við höfum velt fyrir okkur raforkusölu til stóriðju og ég hef m.a. rætt það við hæstv. fjármálaráðherra, sem hefur útskýrt fyrir mér að raforkuverð til járnblendisins á Grundartanga er meitlað í stein og að ekki sé hægt að breyta neinu þar um. Íslendingar seldu rafmagn til stóriðju, alls um 12.400 gígawattstundir árið 2008 samkvæmt Orkustofnun. Gjald á hverja kílówattstund upp á eina krónu mundi skila 12,4 milljörðum kr. í tekjur til ríkissjóðs. Ef það gjald væri helmingað niður í 50 aura á kwst. værum við komin þarna niður 6 til 7 milljarða. Þetta eru skattstofnar sem eru breiðir og stöðugir, þeir valda ekki heimilum eða útflutningsfyrirtækjum þungum búsifjum því að í umhverfi þar sem gengi krónunnar er mjög lágt eru það einmitt þessir geirar atvinnulífsins sem hagnast mest.

Síðast en ekki síst er tillaga frá okkur um aflagjald, þ.e. að úthlutaðar fiskveiðiheimildir verði skattlagðar um 50 kr. á hvert kíló á jafnaði. Slíkt aflagjald gæti skilað tæplega 28 milljörðum kr. í ríkissjóð. Það er athyglisvert í því samhengi að velta því fyrir sér að leiguverð í þessu blessaða kvótakerfisfyrirkomulagi er 230 kr. á kílóið í dag. Það eru menn í samfélaginu sem treysta sér til að veiða þorsk og borga 230 kr. fyrir veiðileyfið á kílóið, þannig að 50 kr. á hvert kíló sýnist kannski ekki mikið í því samhengi. Hér er um að ræða enn einn breiða tekjustofninn á atvinnugrein sem fengið hefur auðlindina afhenta án endurgjalds áratugum saman, hefur hagnast á því um milljarða og sólundað því fé í afspyrnuslæma skuldsetningu vegna alls konar brasks. Það er einfaldlega kominn tími til að mínu mati að hér verði breyting á og komið verði á réttlæti í skattkerfinu með því að þeir sem nýta auðlindirnar greiði fyrir þær.

Eins og ég tæpti á áðan hafa þessir geirar nú sem stendur einmitt bolmagn til þess að standa undir þessum sköttum og það er líklegt, samkvæmt spám Seðlabankans sem við höfum séð, t.d. varðandi þessar Icesave-greiðslur, að gengi krónunnar muni haldast hér mjög lágt í mjög langan tíma. Það er því ekki útlit fyrir annað en að þessir tekjustofnar muni halda og vera aflögufærir fyrir fyrirtækin í allmörg ár. Því skora ég á hv. formann efnahags- og skattanefndar og hæstv. fjármálaráðherra að veita þessum tillögum athygli og velta því fyrir sér hvort hér sé ekki komin leið sem mundi, þrátt fyrir hróp og væl sérhagsmunasamtaka, vera betri fyrir almenning í landinu og leiða til minni deilna en þeirra sem við höfum t.d. heyrt frá Sjálfstæðisflokknum í þingsal í dag. Ég hef aldrei gefið mikið fyrir tillögur þeirra eða stefnu í skattamálum en það væri þó alla vega hægt að halda því fram að hér væri verið að hlífa almenningi í landinu við skattheimtu. Þessar skattahækkanir eru óréttlátar gagnvart almenningi. Það hefur komið í ljós að tekjuskattar 79 þúsund einstaklinga fara t.d. eingöngu í það að greiða vextina af Icesave á hverju ári þannig að menn upplifa þetta sem óréttlæti, ósanngirni og þetta veldur óróa í samfélaginu. Hér höfum við bent á leiðir til þess að reyna að slá á þann óróa og þá ósanngirni og ég vonast til þess að þeim verði veitt athygli.