138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[14:37]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir ágæta ræðu. Hún var málefnaleg og skynsamleg, að mér fannst. Við erum ósammála um vissa hluti og við gerum okkur báðir grein fyrir því og það er svo sem ekki mikið um það að segja.

Eftir að hafa hlustað á ræðu hv. þingmanns heyri ég að hann tekur afar vel undir þær tillögur sem við sjálfstæðismenn höfum verið með um að skattleggja séreignarlífeyrissparnað, eða réttara sagt að breyta því hvernig hann er skattlagður, hv. þingmaður gerir sér vel grein fyrir því að það mun þýða miklar tekjur.

Mig langar því að spyrja hv. þingmann: Ef sú leið yrði farin að skattleggja inngreiðslur í lífeyrissjóði, séreignarsparnað, í staðinn fyrir útgreiðslur, sæi hann fyrir sér að einhverjum öðrum sköttum yrði sleppt, þ.e. mundi það gefa okkur færi á að sleppa við aðrar skattahækkanir, eða yrði þetta bara til þess að bæta við skattheimtu ríkissjóðs? Hvað sér hv. þingmaður þá fyrir sér að yrði gert við þessar tekjur?