138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[15:03]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður kom inn á ákveðið vandamál sem ég hef haft miklar áhyggjur af og það er flokksræðið. Hann er múlbundinn í flokksræði gagnvart Icesave og mörgum öðrum málum og hann reiknar með að ég sé það líka. Ég er það ekki. Ég hef iðulega greitt atkvæði gegn mínum flokki ef það meiðir mína sannfæringu, í gegnum tíðina, alla tíðina, og ég mun ekki skirrast við það í þessu.

Sjómannaafslátturinn er umdeildur í mínum flokki og alls ekki í stefnu flokksins. Ég hef engar áhyggjur af því að halda því fram að ég vilji afnema sjómannaafsláttinn og ég mundi gera það í einum rykk, vegna þess að þá er baráttan bara í sex vikur en ekki í fjögur ár. Útgerðin stendur mjög vel eins og er og það mætti breyta þessu yfir í daggjaldakerfi, þá yrði það í samræmi við aðra. Ég hef ekkert á móti sjómönnum en ég hef á móti því að menn séu ekki jafnir fyrir lögum, skattalögum, það er það sem ég hef á móti. Menn geta sem sagt borgað fyrir húsnæði um borð eða matinn, þetta er einn dýrasti matur í heimi, kokkurinn er á hlut, einum og hálfum. Ef þeir borguðu fyrir matinn og húsnæðið gætu þeir fengið dagpeninga eins og opinberir starfsmenn, vandinn er leystur.

Varðandi auðlindagjaldið þá lagði ég til að dreifa kvótanum á alla þjóðina. Ég er eini þingmaðurinn sem hefur sett fram þá hugmynd að dreifa kvótanum um alla þjóðina þannig að hver einasti maður fengi úthlutað veiðiheimildum hvers árs. (Gripið fram í.) Veiðiheimildin sem varanleg eign mundi hverfa, það fólk sem búsett er á Íslandi fengi árlega veiðiheimildir og mætti selja það algjörlega frjálst, þarf ekkert að eiga skip eða neitt, algjörlega frjálst. Þetta hef ég lagt fram, frú forseti, og hv. þingmaður getur kynnt sér það í málaskrá minni.