138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[15:07]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er búinn að lista út alla þingmenn, hvað þeir hafa talað oft, og hv. þingmaður hefur talað fjórum sinnum í andsvörum, aldrei í ræðu. Nú á ég væntanlega von á því að fá ræðu frá hv. þingmanni þar sem hann færir rök fyrir því af hverju okkur beri skylda til að borga þetta. Það er mjög ánægjulegt. Hv. þingmaður hefur örugglega fylgst með umræðum, því að það er lagaskylda, og hann hefur örugglega heyrt að í Icesave-málinu höfum við stjórnarandstæðingar kvartað sáran undan þátttökuleysi stjórnarliða í málinu.

Nú er sem sagt búið að tilkynna að í kvöld verður haldin ræða um Icesave þar sem rökstutt verður að Íslendingar eigi að borga. Ég hefði sérstaklega gaman af því að heyra þann rökstuðning vegna þess að ég færði rök fyrir því í ræðu minni — sem hv. þingmaður hefur hlustað á, en var ekki í salnum og fór ekki í andsvar — að samkvæmt tilskipuninni eru það innlánsstofnanirnar sem eiga að borga það og ríkið má ekki borga það, samkvæmt tilskipuninni sem um er að ræða — ég las það upp fyrir hann, þannig að ríkið má ekki borga. Við erum að brjóta reglur Evrópusambandsins með þessu samkomulagi sem við erum að ræða í Icesave.

Það er því mjög ánægjulegt að hv. þingmaður skuli ekki vera bundinn flokksaga. Hann greiðir þá væntanlega atkvæði gegn Icesave.