138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[15:09]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við upphaf hrunsins sem varð hér í október í fyrra var ljóst að skattstofnar ríkisins mundu skreppa gríðarlega mikið saman auk þess sem það lá fyrir að útgjöld mundu aukast af ýmsum ástæðum, útgjöld sem voru tengd þessari kreppu, svo sem eins og atvinnuleysisbætur. Það lá því ljóst fyrir að rekstur ríkissjóðs yrði mjög erfiður á þessu ári og á komandi árum.

Í samkomulagi sem gert var við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn komust íslensk stjórnvöld og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn að samkomulagi um það að ríkissjóður yrði rekinn með 150 milljarða halla á ári og síðan yrði stoppað upp í það gat á næstu þremur árum. Ljóst er að mikið verk liggur fyrir stjórnvöldum að ná þeim markmiðum og það er alls ekki auðvelt. Það er hægt að loka þessu gati á þrennan hátt, í fyrsta lagi með því að spara útgjöld, í öðru lagi með því að hækka skatttekjur og í þriðja lagi með því að breikka skattstofnana. Samsetning á þessum leiðum hefur mjög mikið að segja um hvernig hagvöxtur mun þróast hérna á næstu árum vegna þess að taka þarf svo afdrifaríkar ákvarðanir og gera slíkar breytingar á bæði skattkerfinu og útgjaldaliðunum að það mun hafa áhrif á eftirspurn í landinu, sem mun væntanlega dragast saman ef farin verður sú leið sem hér hefur verið boðuð.

Þessu er að vísu neitað í greinargerð með frumvarpi til laga um tekjuöflun ríkisins. Þar er því haldið fram að málflutningur þeirra sem hafa bent á að kreppan geti dýpkað og lengst við þessar aðgerðir sé rangur. Þar er sagt að málflutningurinn hafi verið sá að hækkun skatta og hækkun útgjalda ríkisins muni leiða til minni eftirspurnar og því er haldið fram þar að það sé ekki rétt. Það hefur enginn haldið því fram. Það er því einfaldlega rangt í greinargerðinni að þessu sé haldið fram og einhvern veginn er snúið út úr þeim málflutningi sem bæði stjórnarandstæðingar, matsfyrirtæki og hagfræðingar hafa haldið fram.

Það er ljóst að eitthvað þarf að gera. Við sjálfstæðismenn höfum bent á að við viljum frekar fara þá leið að breikka skattstofnana og við viljum gera breytingar á skattheimtu séreignarlífeyrissparnaðar en því er raunverulega hafnað í greinargerð með frumvarpinu sem einhvers konar óráðsíuhugmynd. Hv. formaður efnahags- og skattanefndar tók reyndar vel undir þetta í ræðu fyrr í dag og talaði skynsamlega um þessa leið. Þetta er svona almennt það sem ég hefði viljað segja um þau frumvörp sem hér liggja fyrir. Ljóst er að þetta eru gríðarlega víðfeðmar breytingar, lagfæringar og hagræðingar á skattkerfinu sem á að fara út í ef frumvarp þetta nær óbreytt fram að ganga, en auðvitað á það eftir að fá meðferð þingsins. Það á eftir að fá meðferð í efnahags- og skattanefnd þar sem einhverjar breytingar verða eflaust gerðar.

Ef við byrjum á frumvarpi um tekjuöflun ríkisins, þskj. 292, þá langar mig aðeins til að grípa niður í nokkrar greinar. Ég ætla að reyna að tala ekki um það sem hefur komið fram áður heldur einbeita mér kannski að því að taka dæmi um tæknilegar breytingar sem er verið að gera, sem ég tel vera vanhugsaðar, settar fram hugsanlega af skilningsleysi, en í besta falli eru þær óskynsamlegar.

Í 2. gr. er talað um að áfallinn gengishagnað á hverja úttekt af reikningi í innlánsstofnunum skuli færa til tekna. Ef ég lýsi vandamáli sem gæti komið upp, segjum sem svo að hér sé einhver sem eigi gjaldeyri á reikningi í byrjun árs 2010. Síðan muni gengið styrkjast út árið og um áramótin 2011 er gengið orðið mun sterkara. Þá hefur myndast gengishagnaður og samkvæmt því á að færa það til tekna. Síðan er borgaður skattur af því. Segjum síðan að á næsta ári, 2011, liggi upphæðin áfram inni á reikningnum og að gengið muni veikjast út árið og um áramótin 2012 hafi myndast gengistap. Það er ekki frádráttarbært frá skatti. Það sem hefur gerst þarna er að peningur sem hefur legið algjörlega óhreyfður á reikningi hefur verið skattlagður þrátt fyrir að það hafi á engan hátt orðið tekjuauki hjá þeim sem á reikninginn.

Í greinargerðinni er sagt með þessu að verið sé að herða á óskýru orðalagi. Ég get sagt það að í lögunum eins og þau eru núna er eitthvað í þá áttina en þetta hefur aldrei komið til framkvæmda vegna þess að það er ekki hægt að framkvæma þetta. Það er allt of, allt of flókið og því sem næst ómögulegt að áliti endurskoðenda að framkvæma þetta. Að því leytinu til á þetta sammerkt með afdráttarsköttunum sem voru samþykktir í sumar að þetta lítur ágætlega út á blaði en í praxís er ekki hægt að framkvæma þetta.

Tökum annað dæmi af 3. gr. Hún fjallar um arðsúthlutun eða hvernig henni á að vera háttað. Ef arðsúthlutun félags er samtals umfram 20% af skattalega bókfærðu fé skal meðhöndla hana eins og tekjur.

Hugsum okkur dæmi af fyrirtæki sem fimm menn eiga saman og hver þeirra á 20%. Hvernig á að fara með það? Það er ómögulegt í framkvæmd. Auk þess sem 20% vegna t.d. arðsemiskrafna, sem eru m.a. vegna verðbólgu og hárra vaxta og annars slíks, er allt of lág prósenta. Ef menn vilja ná fram því sjónarmiði, þ.e. að í raun sé ekki hægt að setja inn í einhver einkahlutafélög til að sleppa undan skattkerfinu, þá þarf að hugsa það allt öðruvísi en gert er hérna, þetta er vanhugsað. Aftur á móti skil ég markmiðið með ráðstöfuninni og ég geri svo sem engar athugasemdir við það vegna þess að það hefur verið allt of algengt að menn hafa getað fært sig inn í einkahlutafélög til þess að borga lægri skatta og sleppa undan sköttum. En þessi leið er ekki fær, þetta leiðir ekki af sér góða niðurstöðu.

Víkur þá að 5. gr. Þar er sett þak á framlag launagreiðenda til öflunar lífeyrisréttinda. Þar er miðað við tiltölulega lága upphæð eða 2 millj. kr. á ári. Þetta kann að mismuna tekjuháum, og ekki bara tekjuháum heldur þeim sem hafa stutta starfsævi. Hugsum okkur t.d. flugstjóra, ég veit ekki nákvæmlega hvenær þeir hætta að vinna en ég gæti ímyndað mér að upp úr 55 ára aldri færu þeir á eftirlaun eða færu að starfa við eitthvað annað, en segjum sem svo að þeir fari á eftirlaun. Það er ljóst að þeir þurfa að leggja mun hærra hlutfall tekna sinna á starfsævinni í lífeyrisgreiðslur til þess að standa undir lífeyrisréttindum sínum. Þetta gæti átt við um fleiri stéttir þannig að þetta er of lág upphæð og þetta leiðir hugsanlega til þess að það brjóti einhvern veginn í bága við jafnréttisákvæði stjórnarskrárinnar. Sá sem á stutta starfsævi vegna starfa sinna, við getum ímyndað okkur eins og ég sagði flugstjóra eða slökkviliðsmenn o.s.frv. — þetta gæti komið niður á þeim.

Ég ætla að taka þriðja dæmið af 7. gr. Með því að innheimta skatta af tekjum af arði og gengishagnaði af sölu hlutabréfa í eigu hlutafélaga er gerð tilraun til þess að tvískattleggja tekjur vegna gengishagnaðar, fyrst þegar viðkomandi hlutafélag greiðir skatta af tekjum eða hagnaði og síðan þegar þessi hagnaður er greiddur til eigenda félagsins í formi arðs. Þetta held ég að sé mjög óskynsamleg leið og hún muni leiða til minni fjárfestingar í framtíðinni og jafnvel enn meiri flótta með fyrirtæki úr landi, fjárflótta, þegar gjaldeyrishöftin verða afnumin, sem við skulum vona vegna okkar allra að verði sem fyrst.

Þá kemur að 8. gr. Hún toppar eiginlega þetta allt saman. Þar bætast við þrír nýir málsliðir þar sem talað er um vaxtagjöld af skuldum sem færast yfir við samruna og annað slíkt. Ákvæðið á væntanlega að taka á því að koma í veg fyrir skuldsettar yfirtökur. Nú er það svo að þegar eitt fyrirtæki kaupir annað er ákveðið eitthvert verð, svo er það bókfært á því verði og munurinn á bókfærðu virði í fyrirtækinu sem var keypt og kaupverðinu er bókað inn sem „good-will“.

Ef þetta verður að raunveruleika verður það úr sögunni að hagræðing geti átt sér stað og kaup og sala á fyrirtækjum nema þá að verð á fyrirtækjum lækki einfaldlega og fyrirtæki verði aldrei seld nema sem nemur bókfærðu verði. Ef þetta fer í lög seinkar það þeirri endurreisn sem er hérna. Ég sé alveg hver hugmyndin er og ég hef heyrt í starfsmönnum skattsins tala fjálglega um að „good-will“ sé bara froða og loftbóla og menn tala í því samhengi um eignarhaldsfélögin og annað slíkt. Það er gott og vel og ágætismarkmið í sjálfu sér að reyna að koma í veg yfir að eignarhaldsfélögin þenjist svona út. Aftur á móti kemur þetta í veg fyrir raunverulega sameiningu fyrirtækja, rekstrarfélaga, vegna þess að þetta gildir um það allt. Þetta er vanhugsað og ég mun gera stórkostlegar athugasemdir við þetta í hv. efnahags- og skattanefnd.

Ég er kominn núna í fyrstu átta greinarnar af ég veit ekki, kannski 60, 70 greinum, þannig að af nógu er að taka. Mér sýnist að nefndarálit minni hlutans verði ekki eins og hefðbundið er, nokkrar blaðsíður, heldur muni það frekar líkjast einhvers konar bókmenntaverki.