138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[15:31]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég og hv. þingmaður erum algerlega sammála um að hér þarf að skapa ný störf, það þarf að breikka tekjustofnana fyrir ríkið og veita vinnufúsum höndum atvinnu. Allar kreppur eiga það sameiginlegt að of lítið er gert of seint sem verður til þess að þær dýpka og lengjast úr hófi fram. Hvort það að breyta skattkerfinu með því að taka upp þennan þrepaskatt og annað slíkt hafi verið nauðsynlegur liður í því að takast á við það mikla hrun sem varð hér seinasta haust, þá sé ég ekki augljóst samhengi þar á milli. Mér finnst það frekar vera hugmyndafræðileg breyting sem hefur ekkert að gera með þær skatttekjur sem þarf að setja í ríkissjóð. Jafnframt vil ég árétta að álit mitt er að miðað við núgildandi lög, alveg óháð því hvernig þau hafa annars verið meðhöndluð, þá liggur ljóst fyrir að þessar skattahækkanir leggjast á alla, líka fólk með tekjur undir 270 þús. kr. Aftur á móti er rétt að skattkerfið verður brattara þannig að fyrir millistéttina eykst skattþunginn mjög mikið. Hægt er að sýna fram á það að þegar allar skattahækkanirnar eru lagðar saman minnka ráðstöfunartekjur hjá fólki með millitekjur um u.þ.b. milljón á ári. (Forseti hringir.) Þá erum við að tala um bensínskatta, orkuskatta, tekjuskatta og alla þessa strollu, sem munu minnka ráðstöfunartekjur (Forseti hringir.) sem er slæmt.