138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[15:38]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef hugur fylgdi máli hefði þingmaðurinn barist fyrir því að persónufrádrátturinn mundi hækka eins og lög kveða á um og að hér yrði settur á hátekjuskattur. Það hefði verið baráttumálið ef hugur fylgdi máli. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður hefði bætt það upp með hátekjuskatti á þá sem reglulega geta borgað. Það sem verið er að gera núna er að auka brattann hjá öllum og skattleggja nýja hópa fólks, þá sem eru með lægstu tekjurnar miðað við núgildandi lög. (MSch: Get ekki svarað.) Nei, ég meina að það er staðreyndin í málinu, það er ósköp auðvelt að koma hér upp og gera sig breiðan og segja: Við erum að jafna tekjur í þjóðfélaginu. En það er ekki rétt. Það er verið að búa til þyngri byrði á millitekjuhópinn.

Vinstri menn, þ.e. sósíalistar og Vinstri grænir, slepptu þessu tækifæri til að setja á hátekjuskatt, skattleggja kapítalismann. Þeir slepptu þessu tækifæri og þyngdu frekar byrði þeirra sem lægst hafa launin og millitekjufólks, (MSch: Yfir 650.) þyngdu byrðina. Það er heila málið. En hvaða álit ég hef á því hvort nota eigi skattkerfi til jöfnunar, ég er á því að við höfum haft mjög gott skattkerfi en ég hefði viljað samræma bótakerfið betur skattkerfinu þannig að þeir sem reglulega þurfa á aðstoð að halda hefðu fengið hana, ég tel t.d. ekki sanngjarnt að vera með flatar barnabætur yfir alla óháð tekjum.