138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[16:12]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég fór yfir það hvernig samstarfinu í þessum efnum væri almennt háttað við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Það er að sjálfsögðu ekki þannig að hann komi að ákvarðanatöku um einstök atriði í skattamálum eða útfærslur á einstökum atriðum. Það er ekki þannig. Starfsmenn hans hafa sjálfir orðað þetta þannig að þeir kunni að áskilja sér rétt til að hafa skoðun á einhverju sem við ákveðum en sem betur fer er það ekki þannig að ákvörðunarvald varðandi útfærslu skattkerfisbreytinga hafi verið framselt úr landi. Þeir hafa ekkert verið með nefið ofan í því hvernig þetta er gert. Aðhaldsmarkmiðin, útlínur og meginmarkmið efnahagsáætlunarinnar eru unnin í samráði við þá en ekki ákvarðanir um einstök atriði, útfærslur og tæknilega hluti eða annað í þeim efnum og þaðan af síður pólitíkin enda hef ég aldrei látið hana úr mínum höndum og við sem stöndum að þessari ríkisstjórn getum ekki farið í breytingar á skattkerfinu til að laga það í rétta átt að tekjujafnandi norrænu velferðarskattakerfi.

Varðandi skuldirnar, þá sagði ég ekki að það hefði ekki áhrif á verðlag hvort valin væri leið hækkunar óbeinna skatta eða beinna, það gerir það að sjálfsögðu, því miður, vegna þeirrar víðtæku verðtryggingar sem hér er í gangi og við þurfum einhvern veginn að finna leið til að vinda ofan af. En þegar kemur að ráðstöfunartekjum heimilanna er munurinn ekki sá sem margir virðast halda, alls ekki, því eins og ég sagði þá er þetta einfaldlega spurningin um það að lækka fyrst það sem kemur í budduna eða það sem eftir verður þegar fólk fer út að versla. En verðlagsáhrifin eru þarna og það er m.a. þeirra vegna sem við förum vægt í óbeinu skattana og virðisaukaskattstofninum er ætlað að skila miklu minna en öðrum skattstofnum einmitt af þessum ástæðum. Við erum í raun og veru aðeins að tala um 6 milljarða kr. tekjuauka í þessum breytingum á móti miklu hærri tölum í beinu sköttunum og ýmsum öðrum tekjustofnum sem við innleiðum til að reyna að hafa verðlagsáhrifin í lágmarki.