138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ársreikningar, endurskoðendur og skoðunarmenn.

218. mál
[16:49]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 3/2006, um ársreikninga, með síðari breytingum, og ýmsum öðrum lögum varðandi endurskoðendur og skoðunarmenn. Frumvarp þetta er lagt fram samhliða frumvarpi til breytinga á lögum um bókhald.

Frumvarp þetta var lagt fram á haustþingi 2008 af þáverandi fjármálaráðherra en var ekki afgreitt úr efnahags- og skattanefnd fyrir þinglok. Málaflokkur þessi hefur nú verið færður yfir í efnahags- og viðskiptaráðuneytið. Frumvarpið er nú lagt fram að nýju lítillega breytt með hliðsjón af þeim athugasemdum sem efnahags- og skattanefnd bárust frá hagsmunaaðilum.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem leiða af lögum nr. 79/2008, um endurskoðendur, sem samþykkt voru á síðasta vorþingi. Töluverðar breytingar voru þá gerðar á áður gildandi lögum og reglum um endurskoðendur. Samkvæmt þeim lögum geta ekki aðrir en þeir sem fá löggildingu ráðherra endurskoðað reikningsskil og áritað þau í samræmi við endurskoðunina. Meginbreytingar þær sem hér eru lagðar til leiða af því að breyta núverandi lögum sem leggja störf endurskoðenda og skoðunarmanna að jöfnu. Þá verður í framhaldi af því að fylgja þeirri breytingu eftir með breytingum á löggjöf í félagarétti, svo sem lögum um hlutafélög, einkahlutafélög og fleiri lögum, sem gera kröfu um kosningu endurskoðenda og/eða skoðunarmanna í samþykktum sínum og framlagningu endurskoðaðra ársreikninga.

Í frumvarpinu er einnig lagt til að falla frá endurskoðunarskyldu minni félaga eins og þau eru skilgreind í 98. gr. laga um ársreikninga. Er það í samræmi við heimild í 2. mgr. 51. gr. í fjórðu tilskipun Evrópusambandsins, um ársreikninga félaga með takmarkaðri ábyrgð, að falla frá endurskoðunarkröfu minni félaga.

Einnig eru lagðar til breytingar á 8. gr. laganna sem fjallar um þau skilyrði sem félög verða að uppfylla til að fá heimild ársreikningaskrár til að færa bókhald og semja ársreikninga í erlendum gjaldmiðli. Ekki er um að ræða efnisbreytingu á ákvæðinu en í ljósi reynslu sem komin er á veitingu þessarar heimildar er lagt til að gera ákvæðið skýrara.

Með frumvarpinu er einnig lagt til að koma til framkvæmda hér á landi ákveðnum þáttum tilskipunar Evrópuþings og ráðsins nr. 2006/46/EB um góða stjórnunarhætti skráðra félaga á skipulegum verðbréfamarkaði og reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar nr. 1569/2007/EB um eftirlit ársreikningaskrár með félögum utan EES-ríkjanna sem skrá verðbréf sín á skipulegum verðbréfamarkaði hér á landi.

Lagt er til að lögin öðlist þegar gildi og skulu gilda um ársreikninga og samstæðureikninga fyrir hvert það reikningsár sem hefst 1. janúar 2010 eða síðar. Ekki er gert ráð fyrir að þær breytingar sem hér eru lagðar fram hafi í för með sér kostnað fyrir ríkissjóð.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.