138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ársreikningar, endurskoðendur og skoðunarmenn.

218. mál
[16:52]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp um ársreikninga, endurskoðendur og skoðunarmenn. Mér sýnist að helstu nýmælin í þessu séu að endurskoðunarskylda minni félaga verði afnumin auk þess sem skýrð eru nokkur atriði í núgildandi lögum.

Nú er það svo að þetta hljómar sem minni háttar lagfæring á núgildandi lögum en hafa ber í huga að allar breytingar sem varða umhverfi fyrirtækja og atvinnurekstrar hér á landi þurfa að taka mið af þeirri þróun sem er erlendis. Því vil ég undirstrika að þegar málið verður tekið fyrir í viðskiptanefnd verði gengið úr skugga um að þetta sé í samræmi við það sem er að gerast í ársreikningagerð og endurskoðun í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við og sé ekki í andstöðu við alþjóðareikningsskilastaðla, vegna þess að það versta sem við getum gert núna er að búa til einhverjar heimasmíðaðar íslenskar reglur sem erlendir fjárfestar og íslensk fyrirtæki sem eru á erlendum mörkuðum þurfa að fara að útskýra fyrir fjárfestum og lánardrottnum.