138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

228. mál
[17:02]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi sem er 228. mál þingsins á þskj. 253.

Á árinu 1999 voru samþykkt á Alþingi lög um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Með lögunum var gjald sem eftirlitsskyldir aðilar greiða til að standa straum af rekstri Fjármálaeftirlitsins breytt á þann veg að tryggt væri að það uppfyllti skilyrði stjórnarskrárinnar um skattlagningarheimildir. Þetta þýddi m.a. að festa þurfti álagningarhlutfall í lögum í stað þess að kveða einungis á um hámark álagningar. Þessum álagningarhlutföllum þarf að breyta á hverju haustþingi enda ógerlegt að ákveða nákvæm hlutföll álagningar á flokka eftirlitsskyldra aðila til lengri tíma en eins árs í senn.

Samkvæmt þessu hefur frumvarp til breytinga á þessum lögum verið lagt fram á hverju haustþingi að fenginni skýrslu Fjármálaeftirlitsins um áætlaðan rekstrarkostnað næsta árs, athugun ráðuneytisins á skýrslunni og að fengnu áliti samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila.

Áætlað álagt eftirlitsgjald á yfirstandandi ári er 766 millj. kr. en frumvarpið gerir ráð fyrir 1.022 millj. kr. árið 2010 og nemur áætluð hækkun á milli ára 255 millj. kr. eða um 33%. Áætlaður rekstrarkostnaður Fjármálaeftirlitsins árið 2009 er 954 millj. kr. en áætlaður rekstrarkostnaður á árinu 2010 nemur 1.111 millj. kr. sem er hækkun um 157 millj. kr. eða tæp 17%.

Umrót í rekstrarumhverfi Fjármálaeftirlitsins á yfirstandandi ári í kjölfar falls þriggja stærstu viðskiptabankanna í október 2008 leiddi til þess að nauðsynlegt var að endurskoða rekstraráætlun stofnunarinnar fyrir árið 2009. Upphaflega áætlað rekstrarumfang var dregið saman og nauðsynlegt reyndist síðar að lækka áætlaðar tekjur af eftirlitsgjaldi enn frekar vegna ófyrirséðs samdráttar í álagningarstofnum eftirlitsgjaldsins. Þessar breytingar leiða til framangreinds misræmis í hlutfallshækkun áætlaðra gjalda og áætlaðra tekna stofnunarinnar milli áranna 2009 og 2010.

Með frumvarpinu er álagningarhlutfalli einstakra tegunda eftirlitsskyldra aðila breytt. Ekki ætla ég að tíunda þær breytingar sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Er gerð skilmerkilega grein fyrir því í athugasemdum með frumvarpinu og þeim fylgigögnum sem því fylgja.

Tveggja atriða vil ég þó sérstaklega geta. Það fyrra varðar kostnað Fjármálaeftirlitsins við rannsóknir á einstökum föllnum fjármálafyrirtækjum og hvernig standa eigi að fjármögnun þess kostnaðar. Í frumvarpinu, eins og í fyrra, er gerð tillaga um að þau fjármálafyrirtæki sem eru undir stjórn skilanefnda eða sambærilegs yfirvalds greiði fast eftirlitsgjald sem nemur 4 milljónum króna. Samkvæmt upplýsingum Fjármálaeftirlitsins er kostnaður þessi umtalsvert hærri en sem nemur álagningunni.

Það er umhugsunarefni hvort gera eigi þeim fjármálafyrirtækjum sem standa undir hefðbundnum eftirlitsverkefnum að standa jafnframt undir kostnaði við sértækar rannsóknir sem beinast gegn einstökum fyrirtækjum.

Seinna atriðið varðar breytingar á starfsumhverfi Fjármálaeftirlitsins og er vissulega tengt hinu fyrra. Hremmingar á fjármálamarkaði hafa kallað á endurskoðun rekstraráætlunar eftirlitsins frá því að áætlun var lögð fyrir samráðsnefnd eftirlitsskyldra aðila og send ráðuneytinu. Meginástæðan er að þörf fyrir fjölgun starfsmanna til að sinna brýnum endurreisnar- og eftirlitsverkefnum og margháttaðri rannsóknarvinnu tengdri bankahruninu á árinu 2009 hefur reynst meiri en ráð var fyrir gert fyrr á árinu. Þá hafa á síðari hluta ársins bæst við hjá stofnuninni ný verkefni tengd samþykkt laga sem ekki var gert ráð fyrir í fyrri rekstraráætlunum. Í því sambandi má nefna lög um verðbréfasjóð vegna fagfjárfestasjóða og lög um skuldaaðlögun heimila.

Að öllu samanlögðu er það mat Fjármálaeftirlitsins að bæta þurfi 8 stöðugildum við fyrir áætlun stofnunarinnar fyrir árið 2010 til að mögulegt sé að sinna fyrirliggjandi verkefnum.

Vil ég vekja sérstaka athygli á þessum atriðum hér og vænti þess að þau verði sérstaklega skoðuð í viðskiptanefnd.

Hæstv. forseti. Meðal fylgiskjala með frumvarpinu er skýrsla Fjármálaeftirlitsins til efnahags- og viðskiptaráðherra um starfsemi eftirlitsins. Í skýrslunni er fjallað um eftirlit með einstökum sviðum fjármálamarkaðar, lánamarkaðar, verðbréfamarkaðar, vátryggingamarkaðar og lífeyrismarkaðar, auk þess sem greint er frá þróun og horfum á íslenskum fjármálamarkaði og áherslum í starfi Fjármálaeftirlitsins næstu missiri. Er skýrslan fróðleg lesning öllum þeim er vilja kynna sér þróun á innlendum fjármálamarkaði og það þótt gjörbreyting hafi orðið frá því að skýrslan var samin.

Hæstv. forseti. Ég mælist til þess að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. viðskiptanefndar