138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

fjármálafyrirtæki.

258. mál
[17:18]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um fjármálafyrirtæki og þá helst hve langur frestur til að höfða riftunarmál vegna gerninga fjármálafyrirtækja geti verið. Frumvarpið kveður á um að þessi tímafrestur verði fjórfaldaður.

Þær athugasemdir sem ég hef við þetta eru að það er mikilvægt að ekki sé innbyggt í lög að það komi til einhverjir tímafrestir sem séu það rúmir að skiptameðferð tefjist, vegna þess að það er algjörlega ljóst að við uppbrot fjármálafyrirtækja eru gríðarlega miklir fjárhagslegir hagsmunir margra í húfi og að draga þann frest sem lög veita til að ganga frá málum gæti varðað fjárhagslega afkomu viðskiptamanna eða þeirra sem hafa hagsmuni eða kröfur í þetta, þ.e. hvort þeir fari á höfuðið eða ekki.

Mér finnst ríflegt að fjórfalda frestinn en það má vera að rökstuðningur sé nægjanlegur fyrir þessu. Ég vil beina því til viðskiptanefndar að skoða vel hvort þetta sé helst til rúmur frestur í ljósi þess að það er ljóst að kröfuhafar og þeir sem eiga kröfur í bú og annað slíkt, þetta lágmarkar þann tíma vegna þessa liðar niður í 24 mánuði þangað til hægt er að skipta búinu.